145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig maður á að svara slíku. Er þetta ekki fullkomlega eðlileg krafa? Hér var á síðasta kjörtímabili starfandi samráðsnefnd um losun hafta. Þar átti flokkur hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur fulltrúa. Sú nefnd fundaði og reynt var að halda henni upplýstri. Formenn flokkanna voru kallaðir á fund þeirrar nefndar. Ég kallaði eftir því að þessi nefnd væri virkjuð og látin starfa áfram. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður bregst við með því að byrja að tala um það sem henni er ávallt efst í huga, sem er Icesave.

Ég verð að biðja hv. þingmann um að færa sig aðeins fram í tímann, ég er ekki einu sinni að biðja hana um að færa sig til framtíðar heldur er ég að biðja hana um að færa sig yfir í daginn í dag og útskýra fyrir mér hvort hún hefði talið það óæskilegt að kalla saman samráðsnefnd um losun hafta. Hefði henni fundist það slæmt að við fengjum meiri upplýsingar? Er hún á móti því? Ég kalla eftir því að hv. þingmaður svari fyrir það.