145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir séráliti mínu eða áliti 2. minni hluta í efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem við ræðum nú. Eins og fram kom í máli framsögumanns meiri hluta nefndarinnar er hér um að ræða mjög tæknilegar breytingar á tekjuskattslögunum. Þær eru gerðar sérstaklega til þess að slitabúin geti gert þá nauðasamninga sem þau þurfa að fara í ef þau ætla ekki að lenda í, ef ég má orða það svo, stöðugleikaskatti sem er 39% á allar eignir búanna og mun falla á fyrirtækin ef þau hafa ekki lagt fram nauðasamninga fyrir 31. desember. Það er, virðulegi forseti, verið að sérsníða lögin í landinu til þess að fyrirtækin fari í þessa nauðasamninga og það er afrakstur af því sem hæstv. fjármálaráðherra hefur kallað lifandi samtal á milli ríkisstjórnar, Seðlabankans og kröfuhafanna, sem við hin köllum yfirleitt að eiga í samningum við.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki ræða sérstaklega hin tæknilegu atriði við þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur fram. Ég ætla að ræða umgjörðina um þetta mál allt saman vegna þess að það snýst um, eins og komið hefur fram áður, eina stærstu aðgerð í efnahagsmálum sem hér hefur verið ráðist í. Til þess að hún sé gerleg er nauðsynlegt að gera þessar tæknilegu breytingar. En ég ætla að ræða um aðgerðina sjálfa.

Virðulegi forseti. Auðvitað fagna ég því ef árangur næst í því að losa um gjaldeyrishöftin, það er ekki nokkur vafi á því. Auðvitað hljóta allir að fagna því en ég vil minna á að stór áfangi á þeirri leið og forsenda þess að þetta uppgjör er mögulegt var tillaga ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingar á gjaldeyrislögum þegar slitabúin voru tekin undir gjaldeyrishöftin. Eins og fram hefur komið áður og kom mjög oft fram í umræðu um þessi mál í vor þá barðist Sjálfstæðisflokkurinn beinlínis gegn þeirri tillögu og framsóknarmenn sátu hjá. Í atkvæðaskýringu um frumvarpið sagði formaður Sjálfstæðisflokksins sem er núverandi hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það er fullkomlega ótrúverðugt þegar sama ríkisstjórnin sendir á fárra daga tímabili út þau skilaboð að gjaldmiðillinn sé ónýtur og hins vegar að það sé verið að herða höftin til að við getum bráðum farið að afnema þau.“

Það var nauðsynlegt, virðulegi forseti, að herða höftin, að loka bankana inni í gjaldeyrishöftum hér og það var forsenda þess að hægt er að fara í þessa aðgerð nú. Ég vil líka ítreka það sem núverandi hæstv. fjármálaráðherra sagði einmitt á þessum tíma, að gjaldmiðillinn væri ónýtur. Gjaldmiðillinn er enn þá ónýtur, virðulegi forseti, og þess vegna er svo mikill vafi á því hvenær við, almenningur í þessu landi, losnum úr gjaldeyrishöftum. Gjaldmiðillinn er of lítill, þetta er örkróna og því miður eru mestar líkur á því að hún verði í höftum enn um sinn. Það er að minnsta kosti ekkert í þeim aðgerðum sem hér eru kynntar sem gefur leiðarvísi um það hvenær lífeyrissjóðirnir, íslensk fyrirtæki og íslenskur almenningur komast úr þessum höftum. Eins og ég sagði áðan þá er nauðasamningaleiðin hin leiðin sem kröfubúin hafa á móti því að borga 39% skatt á allar eignir. Það er mjög gagnsæ leið en þessi leið hérna er því miður ekki gagnsæ. Svo virðist — ég ætla að segja að svo virðist — sem verið sé að gefa um 400, 450 milljarða afslátt frá stöðugleikaskattinum sem menn sögðu að ætti að vera jafn gild leið. Þess vegna hljótum við að kvarta yfir því hvernig staðið hefur verið að kynningu á þessum málum öllum. Í þeim kynningum sem við höfum fengið virðist vera gerð tilraun til þess að hækka eins mikið og mögulegt er hvað kemur út úr stöðugleikaframlaginu. Þetta er svo ógagnsætt og gert á þann hátt að maður fyllist sannast að segja tortryggni, virðulegi forseti. Það er það sem er svo vont í þessu máli.

Tökum til dæmis Íslandsbanka, hann er færður yfir á bókfærðu verði sem er 180 milljarðar. Þeir sem þekkja til segja að það sé mjög óvarlegt að halda að hægt sé að selja banka á bókfærðu verði þessa dagana. Einnig eru taldir til 60 milljarðar sem þegar hafa verið greiddir í bankaskatt. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að það sé vegna þess að ef slitabúin fara í nauðasamninga sé engin hætta á að þau fari einhvern tímann í mál út af því að hafa fengið það greitt. Það er alltaf verið að pumpa upp þá upphæð sem kemur inn í nauðasamningunum. Til hvers, virðulegi forseti? Til þess að reyna að gera afsláttinn frá stöðugleikaskattinum sem lægstan.

Virðulegi forseti. Ég vil segja það að ég er alls ekki á móti því að fara samningaleið og ég skil það vel að menn fari samningaleið. Við gerðum það á síðasta kjörtímabili og það er rétt að rifja upp að í Icesave 2 sem var samningaleið hömuðust hér menn alveg hreint á móti okkur eins og við værum nánast landráðafólk. Reiknað hefur verið út að sú leið hefði kostað okkur á bilinu 30–55 milljarða. En hvað segir Viðskiptaráð? Viðskiptaráð segir að gjaldeyrishöftin kosti okkur 80 milljarða á ári. Ef Icesave 2 hefði orðið að veruleika hefðum við losnað tveimur eða þremur árum fyrr úr höftum eða það hefði losast um fyrr en raun verður á. Ég tek þetta fram vegna þess að ég er ekki á móti því að menn fari samningaleið og ég skil það mjög vel vegna þess að það er öruggara að standa föstum fótum en að vera í lausu lofti. En þá, virðulegi forseti, verða menn að segja það, segja að þeir fari samningaleiðina vegna þess að hún sé öruggari fyrir okkur öll. Það er bara gott mál. En ekki bjóða okkur upp á það að þetta séu jafn gildar leiðir. Það er það sem er svo óþolandi, virðulegi forseti, því miður.

Ég vil ítreka það að menn hafa sagt að jafnræði eigi að vera í því hvernig við losnum öll úr gjaldeyrishöftum. Út af fyrir sig þá skil ég það vel og finnst það ekkert óeðlilegt að höftin séu núna losuð af slitabúunum. Þau borga vissulega fyrir það eins og seðlabankastjóri hefur minnst á. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt en þá þarf að fylgja því áætlun um hvernig íslenskt þjóðfélag, íslenskt atvinnulíf, íslenskur almenningur kemst út úr höftunum. Það er algjörlega fráleitt, virðulegi forseti, að í þessum áætlunum hér er reiknað með því, skilst mér, að lífeyrissjóðirnir geti farið út með 10 milljarða á ári á næstu árum. Það vita það allir, það veit það hver maður sem eitthvað hefur fylgst með málum af þessu tagi, að 10 milljarðar eru smápeningar miðað við þá fjárþörf eða ávöxtunarþörf sem lífeyrissjóðirnir eru í og þurfa að koma úr landi á næstu árum til þess að geta ávaxtað sitt fé.

Virðulegi forseti. Eins og rætt hefur verið og kom fram í andsvari hv. þm. Árna Páls Árnasonar er hér hópur, Indefence svo ég nefni hann, sem hefur varað við þessari leið. Þeir segja að helmingurinn sé eftir og vandinn sé alls ekki leystur. Mér finnst slæmt að enginn hafi getað hrakið það sem þeir segja, það hefði gert mig miklu rólegri með þetta allt saman ef mennirnir sem eru ábyrgir fyrir þessu öllu hefðu hreinlega getað sannfært mig um að röksemdir þeirra í Indefence héldu ekki, ef þeir hefðu sannfært mig um að þeir færu ekki með rétt mál. Það hefur ekki verið gert og það finnst mér slæmt, virðulegi forseti.

Ástæða þess að ég skila þessu séráliti sem liggur hér frammi er fyrst og fremst almenn gagnrýni á málatilbúnaðinn frekar en athugasemdir við einstakar lagagreinar. Ég vil taka undir vangaveltur, og er þar á báti með flokksbróður mínum, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, um breytinguna á afdráttarskattinum. Mönnum hefur ekki tekist að skýra út fyrir mér af hverju hún er nauðsynleg og af hverju er nauðsynlegt að gera hana í þessum flýti. Menn taka dæmi af því þegar Landsvirkjun fékk lán fyrir einhverjum árum, þetta sé nauðsynlegt vegna skuldabréfa sem Landsvirkjun gaf út, ég skil ekki hvernig það er sambærilegt við þessa kröfuhafa sem við vitum ekkert hverjir eru og hvar þeir eru. Það er ljóst að þegar kröfuhafar eru í þeim löndum þar sem öll viðskipti eru uppi á borðum í Evrópu eða Bandaríkjunum þá eru þar tvísköttunarsamningar í gildi og þar verða skattarnir greiddir. Yfir þessu er líka einhver hula og dula sem mér finnst vont. Það er fyrst og síðast það, af hverju er þetta ekki allt lagt fram? Kynningin á stöðugleikaframlaginu og hvernig það er, af hverju er þetta ekki bara útskýrt vel og vandlega? Af hverju fengum við ekki að fylgjast með hinu lifandi samtali sem var við kröfuhafana? Það hefði verið hægt að gera það í þingnefndinni, það hefði verið hægt að gera það í samráðshópnum sem hér var talað um. Allt vekur þetta tortryggni og það er leitt, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er vissulega mjög áríðandi mál. Ég vona að það verði þjóðinni til heilla að leysa þetta svona, það vona ég sannarlega. En þá hefði átt að gera það á þann hátt að við þyrftum ekki að vera tortryggin. Það eru mín lokaorð.