145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að Icesave bar hér á góma finnst mér rétt að árétta það að ólíku er saman að jafna, Icesave eða samskiptum við kröfuhafa núna. Í Icesave var um það að ræða að þar var haldið fram löglausum kröfum á hendur íslenska ríkinu, löglausum kröfum, sem ekki var nein ástæða til að semja nokkurn skapaðan hlut um. Hér er hins vegar, illu heilli, um að ræða lögvarðar kröfur kröfuhafanna, lögvarðar kröfur, sem okkur er vonandi að takast að fá þá til að gefa eftir, kröfur sem þeir eiga í þessi slitabú, kröfur um íslenskar krónur, kröfur um erlendar eignir á Íslandi. Þetta eru allt lögvarðar kröfur. Það er gott að menn hafi þetta í huga og nauðsynlegt, bæði þegar menn tala um skilyrði fyrir stöðugleikaskatti eða skilyrði fyrir nauðasamningum. Þá vil ég benda á það þegar talað er um nauðasamninga að ekki er verið að tala um samninga ríkisins við þessa kröfuhafa. Ríkið hefur ekkert með þessa nauðasamninga að gera heldur eru þetta nauðasamningar á milli kröfuhafanna. Þeir hafa ekki enn náð samningi.

Ég vil spyrja framsögumann 2. minni hluta álitsins: (Forseti hringir.) Leggst framsögumaðurinn í fyrsta lagi gegn þessu máli sem liggur fyrir um breytingar á ýmsum lögum, og í öðru lagi gegn þeirri leið sem fyrirhugað er að fara með nauðasamningana? Með öðrum orðum, vill framsögumaður sjá (Forseti hringir.) að hér verði farin skattlagningarleið og slitabúin skattlögð með þeim hætti sem lög kveða á um?