145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:58]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að hafa það alveg skýrt þá er ekki í 172. máli, um þessar breytingar, verið að fjalla um afléttingu hafta eða undanþágu frá höftum heldur fer það mál samkvæmt gjaldeyrislögum. Við fengum vissulega kynningu frá fjármála- og efnahagsráðherra og Seðlabanka á ákvörðun Seðlabankans. Það var mikil kynning með mörgum línuritum, 25 blaðsíður, m.a. með svokölluðum sviðsmyndagreiningum, þar sem við gátum spurt út í þessa þætti og sáum í hendi okkar að staðan yrði allgóð þó að þessi leið yrði farin.

Ég vildi aðeins spyrja út í þær tölur sem komu fram í nefndaráliti hv. þingmanns. Um miðbik nefndarálitsins kemur fram að ríkisstjórnin hafi haldið því stíft fram að af báðum leiðunum, stöðugleikasáttinni og afsláttarleiðinni, verði gefinn 450 milljarða afsláttur af stöðugleikaskattinum og leiðirnar séu því jafn gildar. Hvernig reiknar hv. þingmaður sig út í 450 milljarða? Ég get ómögulega náð þessu upp í meira en 250 milljarða þó að ég reyni mitt allra besta.