145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta frumvarp staðfesti það sem legið hefur fyrir dálítið lengi, að menn voru að semja, íslenska ríkisstjórnin var í reynd að semja við kröfuhafa og hún fór samningaleiðina. Það voru átök innan ríkisstjórnarinnar sem stóðu í tvö ár um hvort fara ætti gjaldþrotaleiðina eða samningaleiðina. Það er alveg hægt að segja að það hafi sennilega verið skynsamlegra að feta leið samninganna. Ætlar þá hv. þingmaður að telja mér trú um að þegar búið er að standa í samningaviðræðum svo mánuðum skiptir, þ.e. frá því fyrir síðustu jól, uppgötvist allt í einu að það sé alls ekki hægt að gera upp slitabúin og ekki hægt að gefa út þessi skuldabréf, að mönnum hafi yfirsést að leggja þá lykkju á leið sína sem enginn sá fyrir fram? Ég er ekki trúaður á það. Ég get ómögulega fallist á að það sé einhver forsenda þess að hægt sé að gera upp slitabúin að fara þessa leið. Ég held miklu frekar, og er sammála hv. þingmanni um það, að þetta séu engar upphæðir sem skipta máli í hinni stóru mynd, en þær geta skipt miklu máli fyrir örfáa einstaklinga. Ég lít á þetta sem smyglgóss og ég er á móti þessari grein frumvarpsins, en það er þarft að vita að hv. þingmaður styður þetta og þá liggur það fyrir.

Síðan langar mig aðeins að ítreka hina stærri spurningu sem er þessi: Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að þetta leiði til þess að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum? Þegar ég skoða þær áætlanir sem eru fyrir hendi sýnast mér þær benda til þess að allt til ársins 2022 hið minnsta verði hægt að hleypa öðrum umfram kröfuhafa út sem svarar til virði 30 milljarða á ári. Þar inni eru lífeyrissjóðirnir sem hafa þörf fyrir 150 milljarða á ári. Með öðrum orðum, ég leyfi mér að efast um að sú leið sem við erum að fara leiði til þess (Forseti hringir.) að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum þannig að það (Forseti hringir.) nái til mín, til hv. þingmanns og lífeyrissjóðanna.