145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:47]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég árétta að stjórnvöld áttu ekki í samningaviðræðum við kröfuhafa, heldur var það þannig að sett voru fram stöðugleikaskilyrði og svo þurftu slitastjórnir eða hópar kröfuhafa að koma með tillögur að því hvernig þeir mundu uppfylla þessi stöðugleikaskilyrði. Það hefur síðan verið kallað lifandi samtal.

Varðandi það hvernig gagnsæið hefur verið … (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Lifandi samtal um samninga.) Við skulum reyna að víkja að síðari hluta spurningarinnar, hvernig hefur tekist að hafa ferlið gagnsætt. Ég hef orðið var við mikla gagnrýni á þetta ferli og að mörgu leyti ómaklega, held ég, vegna þess að ég sat í þessari sömu samráðsnefnd og þingmaður og þar voru kynntar fyrir okkur ýmsar hugmyndir að lausn málsins. Það verður að segjast að á þeim tíma sem við sátum í samráðsnefndinni á þessu þingi, með þessari ríkisstjórn, voru margar breytingar á þeim hugmyndum. Ég vil taka undir það að sú lausn sem hér er (Forseti hringir.) fjallað um er náttúrlega afraksturinn af vinnu margra ríkisstjórna og meðal annars þeirra breytinga sem gerðar voru á vormánuðum 2012.