145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:50]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég skil ekki hvernig nefndin átti að hafa breytt málinu með þeim hætti að af því hlytist kostnaður fyrir ríkissjóð. Ég óska eftir því að hv. þingmaður útskýri mál sitt ögn betur. Ef hann er að tala um að verið sé að gefa dómstólum aukið svigrúm til 15. mars til þess að fjalla um nauðasamningana og ljúka því ferli sem hér fór af stað með fullum vilja alls þingsins á vormánuðum á þessu ári þá er í rauninni … Mundi hv. þingmaður vilja kinka kolli ef ég er á réttri leið? Er það það sem hann á við? Ég sé ekki að það sé breyting heldur er bara verið að gera þessum aðilum kleift að ljúka málum sínu með þeim hætti sem lagt var upp með. Ég held að það sé ekki tilefni til þess að líta á það sem stórkostlega breytingu að dómstólum sé gefið svigrúm til að fjalla um þau flóknu mál sem nauðasamningar þessara slitabúa eru.