145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:21]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að mótmæla þeim ósvífnu dylgjum sem hv. þingmaður lét sér um munn fara í ræðustóli um afstöðu mína sem fram kom í útvarpsviðtali í morgun um að ég teldi ekki æskilegt eða vænlegt fyrir þjóðina að selja bankana erlendis. Ég rökstuddi það mjög vel í þessu viðtali hvers vegna ég teldi að svo væri ekki og það var ekki af þeim ástæðum sem hv. þingmaður vildi meina, að ég teldi gott og þarft að selja þessa banka einkavinum einhverra. Ég er þvert á móti algerlega andvígur slíku og hef aldrei tekið þátt í neinu slíku, eins og hv. þm. Árna Páli Árnasyni er fullkunnugt um. Hann kemur hingað upp í ræðustól til að dylgja um að þetta sé það sem liggi að baki þegar ég er að færa rök fyrir því að ekki skuli selja bankana úr landi.

Íslenskur viðskiptabanki af þeirri stærðargráðu sem hér er verið að tala um, Íslandsbanki eða Arion banki, segjum sem svo, er hvorki meira né minna en eitt af þeim fyrirtækjum sem skilar mestum arði á hverju ári hér. Bankarnir skila til samans meiri arði en allur sjávarútvegurinn. Ætlum við þá að selja þessa banka úr landi fyrir gjaldeyri? Það er eins og að pissa í skóinn sinn eða skjóta sig í fótinn með þessu eina skoti sem hv. þm. Árna Páli Árnasyni er svo hugleikið vegna þess að enginn kaupir slíka banka nema ætla sér að fá miklu meiri arð áratugum saman út úr landinu. Þessir bankar skapa ekki gjaldeyri, þeir skila arði í krónum og hann verður þá að breytast í gjaldeyri af gjaldeyrisforða þjóðarbúsins, þannig að eitt hið alóskynsamlegasta sem við gætum gert sem þjóð væri að taka þessi risafyrirtæki sem skila öllum þessum hagnaði og dæla þeim hagnaði úr landi í formi gjaldeyris.