145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var bráðskemmtilegt andsvar og skapar mikið svigrúm til svars.

Í fyrsta lagi er ástæðan fyrir því að ekki er rætt í áætluninni um afnám gjaldeyrishafta frá 2011 um slitabúin sú einfalda staðreynd að þau voru ekki undir höftum á þeim tíma og þess vegna í kjölfar þeirrar áætlunar greindum við stöðuna þannig að mjög mikilvægt væri að ganga lengra. Við ættum að fella slitabúin líka undir höft og þess vegna lögðum við fram frumvarp um það.

Hv. þingmaður treysti sér ekki til að greiða atkvæði með því frumvarpi. Hann treysti sér ekki til að segja já við að hemja erlendu kröfuhafana. Nei, hann treysti sér ekki til að segja já við því að setja erlendu kröfuhöfunum stólinn fyrir dyrnar, ónei. Hann gekk reyndar ekki eins langt og forustumenn Sjálfstæðisflokksins sem leiddu fulltrúa erlendra kröfuhafa inn í þinghúsið til að hjálpa þeim að grenja undan lögunum. Ég ætla að gefa honum það.

Það sem skiptir höfuðmáli í málinu … og nú er ég búinn að gleyma hinum þættinum sem hv. þingmaður spurði mig um (Gripið fram í: Þetta er alveg nóg.) en ég skal láta þetta duga í þetta skiptið.

Það sem var gert með lagasetningunni í mars 2012 var að leggja grunn að þeim aðstæðum sem styðja það að þær hafi verið nýttar og ég er bara mjög ánægður með það með hvaða hætti tekist hefur á grundvelli faglegra ráðgjafa Seðlabankans að vinna úr þessum málum. Ég ætla ekki að halda því fram að Framsóknarflokkurinn hafi klúðrað því máli. Hann reyndi hvað hann gat en honum tókst það ekki og ég ætla að hrósa Framsóknarflokknum fyrir það.