145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að 12. mars-lögin settu þrotabúin undir gjaldeyrishöft (ÁPÁ: Og hvernig greiddi hv. þingmaður atkvæði?) og Framsóknarflokkurinn hleypti því máli í gegn (ÁPÁ: Aha, hvernig greiddi þingmaðurinn í atkvæðagreiðslunni?) þegar það kom fram og var kynnt í Seðlabankanum og var lagt fram á þingi og síðan afgreitt. En engu að síður lá ljóst fyrir að sá gjaldeyrisvandi sem um ræddi var til staðar þá og hann var líka til staðar þegar gert var upp með þeim hætti að erlendum kröfuhöfum voru afhentir tveir bankar á sínum tíma áður en kom að þessu og þá var ekki gerð nein greiðslujafnaðargreining. Þá var ekki gerð nein greining á því hvort það væri skynsamlegt og frá þeim tíma hefur Íslandsbanki skilað 136 milljarða hagnaði. Þegar hv. þm. Árni Páll Árnason kemur hingað og ræðst að hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir það að vilja tryggja innlent eignarhald á bönkum, er hann þá að tala um að láta erlenda hrægamma stjórna því hverjir eiga hér banka?

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Árni Páll Árnason skuli styðja okkur og koma hér fram og segja að þetta sé jákvætt skref sem við séum að stíga, en ég er óneitanlega aðeins hryggur yfir því að hv. þm. Árni Páll Árnason skuli koma fram með þeim hætti að telja að það sé jákvætt að erlendir hrægammar eigi hér banka, eins og hann afhenti þeim þá á síðasta kjörtímabili án þess að fyrir lægju nokkrar greiningar þar að lútandi varðandi greiðslujöfnuð og hvaða áhrif það hefði á samfélagið og ekki hefði verið búið að ráðast í nauðsynlega uppstokkun í bankakerfinu áður en ráðist var í þá aðgerð.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir það að hann skuli hrósa Framsóknarflokknum og þeirri aðgerð sem liggur fyrir en hvet hv. þingmann til að hætta að veitast að þeim mönnum, Frosta Sigurjónssyni og fleirum, sem koma fram með skynsamlegan málflutning um að reyna að vinda ofan af ruglinu sem gerðist á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Halló.)