145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kærkomið að fá að fara yfir hvað gerðist þegar kröfuhafar tóku yfir bankana. (ÁsmD: 136 milljarða hagnaður …) Mjög fróðlegt að fara yfir það. Það var nefnilega þannig að ríkið komst hjá því að fjármagna þá. (ÁsmD: 136 milljarða hagnaður …) Hv. þingmaður ætti að sjá hvað það hefur kostað ríkið að þurfa að fjármagna Landsbankann í erlendum gjaldeyri. Það er það sem hefði beðið ríkisins ef ríkið hefði haldið sig við að fjármagna hina tvo bankana nýju. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig að niðurstaðan núna úr þessum samningum ríkisstjórnarinnar við hina erlendu kröfuhafa, þessum settlegu samningum ríkisstjórnarinnar við hina erlendu kröfuhafa, er að sýna það svart á hvítu að það var skynsamleg ákvörðun að ríkið tæki ekki yfir hina tvo bankana (Gripið fram í.) vegna þess að það hefur sýnt sig að þetta var mjög heppilegt og dró úr áhættu ríkissjóðs og ríkið hefði aldrei getað tekið þessa banka nema borga fyrir þá í erlendum gjaldeyri, þannig að það hefði aukið á vandann sem hefði verið við að glíma, ekki dregið úr honum.

Það er ágætt að fá tækifæri til að svara þessum misskilningi og líka er það mjög athyglisvert að sjá viðbrögð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þegar maður vekur athygli á því að búið er að byggja varnargarð um eignarhald á þessum bönkum. Það er búið að segja við útlendinga — hér kemur formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hvorki meira né minna — þingflokksformaður Framsóknarflokksins, fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, varaforsætisráðherra landsins kemur hér og segir: Það kemur ekki til greina að útlendingar fái að kaupa bankann, (Gripið fram í.) kemur ekki til greina. Halda hv. þingmenn að þetta verði ekki þýtt í erlendum blöðum? Jú. Verið er að segja við erlenda kaupendur: Það er ekki séns fyrir ykkur að kaupa þessa banka. Það er búið að taka þá frá fyrir vildarvini okkar. Það er búið að taka þá frá fyrir þá sem hafa stutt okkur og borgað í flokkssjóðina árum saman. (ÁsmD: Þess vegna gafstu … fyrir hrægammana.)