145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef reynt að halda mig við að nálgast málið á grundvelli þeirrar hugsunar við aðgerðina að þetta snúist um að leysa greiðslujöfnunarvandann. Enda byggir okkar réttur til að grípa til aðgerða af þessu tagi, hvort sem heldur er stöðugleikaskatturinn eða að þvinga búin til að reiða af höndum stöðugleikaframlög, á þeim efnahagslega veruleika á Íslandi að við getum ekki skipt út þessum eignum á fullu gengi á örfáum missirum, það er ekki hægt. Og í krafti þess og vegna þess að við þurfum og eigum rétt á því að vinna okkur út úr höftum og komast áfram þá er okkur stætt á því og það mundi halda gagnvart lögum og stjórnarskrá að setja svona kosti.

Það sem ég er aðallega að athuga er hvort þetta sé fullnægjandi. En ég hlýt að svara spurningu hv. þingmanns að hluta til með því að vísa til efasemda minna um það að stöðugleikaframlögin séu fullnægjandi, sem á hina hliðina þýðir auðvitað að kröfuhafarnir eru að fara út á óþarflega góðum kjörum eða kostum.