145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er veruleg ástæða til að velta þessum þætti mjög vel fyrir sér. Við höfum allt of lítið tekið hann til umræðu eða skoðunar, þótt ég viti að vísu ekki hvort efnahags- og viðskiptanefnd hefur gert það. En við skulum viðra nokkrar staðreyndir. Á þessu ári, frá áramótum og fram að þessum tíma, hafa erlendir aðilar flutt inn í hagkerfið 50 milljarða kr. og keypt fyrir þá hlutabréf og skuldabréf. Af hverju? Af því að vaxtastigið á Íslandi er svo hátt og það er svo ódýrt og lágir vextir erlendis að það er hægt að hafa prýðilegan ábata af því að færa hingað fjármuni inn í hagkerfið og ávaxta þá hér. Þetta eru menn að gera í dag, inn í gjaldeyrishöft, með eignir af þessu tagi. Að vísu teljast þetta kannski sem nýfjárfestingar en það skiptir ekki öllu máli. Hvers vegna skyldu þeir sem eru með fjármuni hér fyrir þá ekki hugsa sem svo: Það er bara býsna gott að vera hér áfram? Þá yrðu menn að fara að setja þeim einhverja mjög þrönga afarkosti í því hvað þeir mættu gera með fjármuni sína annað en að flytja þá úr landi á niðursettu gengi. Meiningin var að þeim stæðu þrír kostir til boða í uppboðunum, það væri að binda fé til nokkuð langs tíma í þar til gerðum pappírum, ríkispappírum o.s.frv., (Forseti hringir.) það væri að fara út, ella yrði það læst inn á vaxtalausum lokuðum reikningum.