145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og öðrum þingmönnum kærlega fyrir efnisríkar, áhugaverðar og heldur skemmtilegar ræður. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þennan vaxtamun. Eins og menn þekkja, alla vega hér á bæ, er það þannig að þegar vaxtamunurinn milli Íslands og erlendra ríkja verður mikill gerist það að hagkvæmt verður að lána hér, fá lánað erlendis og búa til þessa, hvað skal segja, kannski ekki fölsuðu en alla vega röngu styrkingu krónunnar. Hv. þingmaður gagnrýnir að með þessari leið sé hætta á því að þetta gerist aftur og það virðist reyndar vera byrjað aftur að einhverju leyti. Sér hv. þingmaður fyrir sér að til séu aðrar leiðir til að hindra þá þróun? Mér hefur sýnst það vandamál vera svolítið rótgróið og í raun og veru felast óhjákvæmilega í vaxtastefnu Seðlabankans og sér í lagi í því að hér eru menn að nota klassíska (Forseti hringir.) hagfræði sem gildir um milljónasamfélög í pínulitlu hagkerfi. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt sé að komast hjá þeim vanda?