145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má segja að þetta sé krónískur vandi lítilla opinna hagkerfa og blandast náttúrulega mikið inn í umræðurnar um sjálfstæðan gjaldmiðil og möguleika minni hagkerfa til að vera með eigin mynt. Það sem mér sýnist vera að gerast er að erlendir fjárfestar og spekúlantar sjá að hagkerfið á Íslandi hefur styrkst, að gjaldeyrissköpun er hér mikil og að landið er væntanlega verulega undirmetið í lánshæfismati. Þeir sjá líka að það vaxa ekkert á trjánum til dæmis úti í Evrópu vænlegir ávöxtunarkostir, eins og ástandið er þar, og fara að hugsa: Heyrðu, er Ísland ekki að verða nokkuð góður kostur til að setja fé á beit? Það er það sem er að gerast. Af slíkri reynslu erum við mjög brennd því að kvikt fé sem kemur snöggt inn getur líka farið mjög snöggt, ef það er þá ekki sett í höft. Hvað er hægt að gera ? Það er auðvitað hægt að hugsa sér einhverja skattlagningu. Ég hef alla vega í 20 ár verið mjög mikill áhugamaður um Tobin-skatt sem bremsaði niður þessar spekúlatífu fjármagnshreyfingar, sem eru ekki til nokkurs annars en endalausra vandræða.