145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki, frumvarp sem tengist nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja, er um margt merkilegt aflestrar. Satt best að segja held ég að rökstuðningur og athugasemdir við frumvarpið sjálft og lagagreinarnar séu með þeim hætti að ég man ekki eftir að hafa séð svo veikan rökstuðning fyrir nokkru máli.

Þetta frumvarp fjallar í grunninn um skattafslátt, þ.e. að veita skattafslátt eða hreinlega fella niður skatta á kröfuhafa föllnu bankanna varðandi nauðasamninga þeirra. Í öðru lagi um rýmri heimild fyrir kröfuhafa til að samþykkja nauðasamninga, að það þurfi færri aðila hlutfallslega til að samþykkja nauðasamninga en hingað til hefur þurft.

Frumvarpið er greinilega flutt eða lagt fram að frumkvæði kröfuhafa föllnu bankanna og að þeirra ósk. Þó að það sé flutt hér af hæstv. fjármálaráðherra er ekki hægt að lesa annað út úr frumvarpinu en að hann geri það fyrir hönd kröfuhafa í föllnu bankana. (Gripið fram í: Hvaða rugl er þetta?) Nú skal ég fara örlítið yfir það og rökstyðja það sem ég hef sagt hér um eðli frumvarpsins.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er lögð til breyting sem lýtur að skattlagningu vaxta vegna skuldabréfa sem lögaðilar, sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, gefa út í eigin nafni sem lið í fullnustu nauðasamnings við kröfuhafa sína. Nánar tiltekið er lagt til að hvers konar vextir af slíkum skuldabréfum, þar með talin afföll, verði undanþegnir tekjuskatti í hendi raunverulegs eiganda skuldabréfs sem ekki ber ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi.“

Þetta er nokkuð skýrt. Áfram segir, með leyfi forseta, um undanþáguna frá skattskyldum og greiðslu afdráttarskatts:

„Undanþágan byggist á þeirri forsendu að leggi þeir fram svokallað stöðugleikaframlag sæti eignir þeirra ekki lengur fjármagnshöftum …“ — þ.e. þeir komast með eigur sínar út úr höftum, undanþágan byggist á því að þeir fái að fara með eignirnar sínar úr gjaldeyrishöftum.

Áfram segir:

„… og verði þeir því undanþegnir þeim takmörkunum sem kveðið er á um í fyrrnefndum lögum um gjaldeyrismál við efndir samkvæmt staðfestum nauðasamningi.

Samkvæmt fulltrúum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja hafa þær upplýsingar borist þeim að stærstu félög á sviði utanumhalds og uppgjörs vegna útgáfu skuldabréfa í Evrópu muni að óbreyttu ekki taka við skráningu á skuldabréfum sem gefin eru út af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir þar sem þeim yrði skylt að halda eftir afdráttarskatti af fjármagnstekjuskatti samkvæmt núverandi löggjöf, sem gæti haft í för með sér bæði tilkynningarskyldu sem og mögulega aðra ábyrgð gagnvart íslenskum skattyfirvöldum. Slíkar skyldur falla að sögn félaganna ekki að starfsemi þeirra og því hyggist þau ekki skrá og annast umsýslu skuldabréfa sem eru gefin út af framangreindum lögaðilum nema komi til breytinga á löggjöfinni. Þeir lögaðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir telja sér ekki fært að halda utan um uppgjör skuldabréfanna án þeirrar þjónustu sem fyrrnefnd félög bjóða fram, en gera má ráð fyrir að í kjölfar staðfestingar nauðasamninga muni nokkur þúsund kröfuhafa, sem flestir eru erlendir, fá skuldabréf útgefin af lögaðilum sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir sem hluta af efndum á nauðasamningi.“

Áfram segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Frumvarpið felur annars vegar í sér ákvæði um undanþágur frá skattskyldu og hins vegar breytingar á reglum sem gilda um nauðasamningsferli fjármálafyrirtækja í slitum.“

Og enn síðar segir:

„Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við ríkisskattstjóra. Þá var einnig tekið mið af ýmsum ábendingum frá fulltrúum slitabúa fjármálafyrirtækja.“

Í þessum texta, sem ég las upp hér, kemur ítrekað fram og margsinnis að vísað er til óska kröfuhafa um lagabreytingu hér á Alþingi þeim í hag. Það er nánast eins og rökstuðningur sé á kafla söguburður, þ.e. að eitthvað hafi heyrst, að hugsanlega geti eitthvað gerst ef lögum verði ekki breytt. Þar segir: „Samkvæmt fulltrúum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja“ — það er vitnað beint til þeirra — „hafa þær upplýsingar borist þeim“. Hvaða upplýsingar bárust þeim? Hver bar þeim þær upplýsingar? Hvaða hagsmunir eru þar að baki? Í þessari athugasemd með frumvarpinu segir sömuleiðis: „Slíkar skyldur falla að sögn félaganna …“ Enn og aftur er vísað til slitabúanna. Færð eru rök fyrir því, að sögn félaganna, samkvæmt því sem þau hafa heyrt, samkvæmt upplýsingum sem þeim hafa borist, samkvæmt fulltrúum slitabúanna o.s.frv.

Þetta frumvarp virðist ekki vera flutt af hæstv. fjármálaráðherra Íslands nema með hagsmuni kröfuhafa í huga. Það er ekkert í athugasemdum með frumvarpinu, hvað þennan lið varðar, þar sem hægt er að færa sæmilega góð rök fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra sé að taka hagsmuni annarra en kröfuhafa í málflutningi sínum: „Að sögn kröfuhafa“, „samkvæmt kröfuhöfum“, „samkvæmt upplýsingum sem kröfuhöfum hafa borist“, „að ósk kröfuhafa“, „þá telja þeir sér ekki fært“ og síðan „má gera ráð fyrir hinu og þessu“, eins og segir í athugasemdunum. Það eru nú öll rökin á bak við það sem hér er verið að leggja fram.

Varðandi seinni liðinn, um að rýmka heimildir kröfuhafa til að samþykkja nauðasamninga, þá segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Annars vegar er lögð til breyting á hlutfalli bak við samþykki nauðasamningsfrumvarps eftir fjárhæðum og hins vegar er lagt til að slitastjórnir hafi heimild til þess að gera tillögu að því á kröfuhafafundi að einungis þeir kröfuhafar sem skráðir eru í kröfuskrá á þeim degi sem tilgreindur er í frumvarpi að nauðasamningi fjármálafyrirtækis hafi heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi.“

Þetta er rökstutt frekar í athugasemdum með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Við þinglega meðferð frumvarps sem varð að lögum, nr. 59/2015, kom fram að endurheimtuhlutfall gæti verið lágt við slit fjármálafyrirtækja. Var í nefndaráliti bent á að ef til vill þyrfti 95% atkvæði eftir fjárhæðum til þess að nauðasamningur væri samþykktur. Var á það bent að svo hátt hlutfall torveldaði samþykki nauðasamnings, þótt meginþorri kröfuhafa væri honum samþykkur og hann sé til hagsbóta fyrir alla kröfuhafa, en með því væri litlum minni hluta veitt neitunarvald gagnvart miklum meiri hluta kröfuhafa“ o.s.frv.

Til viðbótar þessu, með leyfi forseta:

„Eftir samþykkt laganna hafa borist ábendingar um að framangreint þak kunni að vera of hátt miðað við þann fordæmalausa fjölda kröfuhafa sem hafi lýst kröfum við slit þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð. Hefur t.d. verið bent á í því sambandi að í sumum búunum hafi mikill fjöldi smárra og meðalstórra krafna borist frá kröfuhöfum sem ekki hafi síðar haft sig frammi við slitin og óljóst er hvort taki þátt í nauðasamningsumleitunum. Í ljósi þeirra ríku þjóðhagslegu hagsmuna sem eru húfi að slitum fjármálafyrirtækjanna verði lokið og þar sem það er liður í afnámi fjármagnshafta er fallist á að lækka framangreint þak í 85%, en með því er reynt að vega saman hagsmuni smærri kröfuhafa og þeirra sem mynda meiri hluta í hverju búi fyrir sig. Fallist er á að hægt sé að færa framangreint þak niður í 85% til þess að liðka fyrir gerð nauðasamnings“ o.s.frv.

Enn og aftur er sami rökstuðningur. Þegar ég sé breytingartillögu meiri hluta í efnahags- og viðskiptanefnd, sem gengur í raun lengra — þó að þetta tengist fleiri breytingum hvað þetta varðar, er gengið lengra í því að lækka gólfið, að lágmarki í 60% og að hámarki í 85% þeirra atkvæða sem þarf til til að samþykkja nauðasamninga, til að þeir taki gildi — spyr ég: Hverra hagsmuna er verið að gæta þarna? Hvaða ábendingar bárust? Frá hverjum bárust ábendingar um að þetta þyrfti að laga? Þetta gagnast fyrst og fremst stórum kröfuhöfum á kostnað minni kröfuhafa. Það vísar enn og aftur til þess, um tilurð og rót þessa frumvarps sem hér er, að það er lagt fram að ósk kröfuhafa og fyrst og fremst stærri kröfuhafa. Það er gert til að létta þeim lífið við uppgjör nauðasamninga vegna föllnu íslensku bankanna og þá sér í lagi stóru kröfuhöfunum. Gólfið er lækkað til þess að stærri kröfuhafar, sem uppfylla 60% mörkin og rétt ríflega það, geti fallist á nauðasamninga á meðan hagur minni kröfuhafa er fyrir borð borinn.

Af lestri þessa frumvarps og þess sem ég hef farið hér yfir og þess rökstuðnings sem færður er fyrir frumvarpinu, breytingunum, í athugasemdum þess, þá liggur við að maður geti fullyrt að það séu einhvers konar pólitískir undirmálsmenn sem flytja mál með þessum hætti inn í þing svo greinilega í umboði annarra, svo greinilega í umboði kröfuhafa, í þessu tilfelli í föllnu bankana, fyrst og fremst til að gagnast hagsmunum þeirra við uppgjör búanna, erlendra kröfuhafa sem hafa gengið undir ýmsum nöfnum hingað til, sérstaklega hjá þeim sem eru að verja þetta frumvarp og leggja það fram og mæla því bót að það verði samþykkt ekki síðar en í dag.

Að því leytinu til er þetta vont frumvarp. Þó ekki væri nema að því leyti til er þetta vont frumvarp, þ.e. í ljósi þess hverjar rætur þess eru og í hvaða tilgangi það er flutt.

Varðandi málið í heild sinni, þ.e. stærð málsins — þetta er bara einn angi af því — þá er mjög erfitt að átta sig á því hvað þar er raunverulega að gerast. Það hefur komið ítarlega fram, margoft hjá þeim sem eru að reyna að glöggva sig á því um hvað tillögur um stöðugleikaframlög þrotabúanna snúast raunverulega, að þegar búið er að greina þetta niður í það sem skiptir máli og flokka frá endurteknar tölur, flokka frá tekjur sem hefðu hvort eð er komið inn til ríkisins alveg sama hvaða leið hefði verið farin, hvort sem skattaleið hefði verið farin eða leið stöðugleikaframlags. Það er mjög erfitt fyrir leikmenn að greina hvað er raunverulega að gerast þarna. Þó hafa nú menn reynt að gera það.

Séu ráðherrar ríkisstjórnarinnar spurðir hvað sé þarna á ferðinni þá yppta þeir gjarnan öxlum og segja: Þetta er ekki á okkar vegum, við vitum ekkert um þetta, það er bara eitthvert lið úti í bæ að semja um uppgjör þrotabúanna, það kemur stjórnvöldum ekki við. Þeir vísa málunum gjarnan frá sér. Þegar þeir félagar og formenn stjórnarflokkanna, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, hittast á reglulegum fundum sínum í Hörpu þá sýna þeir hins vegar gjarnan svona á bilinu 80–100 glærur. Á glæru 14 frá síðasta fundi kemur til dæmis fram að stjórnvöld hafi kynnt heildstæða lausn við losun fjármagnshafta. Á glæru 16 er fjallað um tillögu að breytingum á ýmsum lögum vegna losunar fjármagnshafta. Á glæru 17 er fjallað um tillögu að breytingu á ýmsum lögum vegna þess að losunaráætlun stjórnvalda liggur nú fyrir Alþingi. Í einu orðinu segjast þeir hvergi koma að málum, þetta sé eitthvað sem berst inn um lúguna hjá þeim. Annað slagið halda þeir kynningarfund, búa til glæru og tala fyrir málinu, en í hinu orðinu segjast þeir ekkert vita hvað er að gerast, hafi enga aðkomu að málunum, það sé bara eitthvert lið úti í bæ sem er að semja um uppgjör þrotabúanna og samkomulag um nauðasamninga. Það er nú öðru nær því að þeir nauðasamningar snúast annars vegar um það hvernig erlendum kröfuhöfum verði hleypt út úr landinu með eignir sínar, og þá með hve mikið, og hins vegar um það hvað verður eftir í landinu af krónueignum sem menn hafa hvorki komið í verð og enginn erlendur aðili vill eiga.

Þá er aðeins ein tala gild í þeim gögnum sem stjórnvöld hafa dreift og kynnt á endalausum fjölmiðlafundum sínum og glærusýningum, það er tala upp á 379 milljarða sem á að vera stöðugleikaframlag þrotabúa bankanna, það sem þeir ætla að skilja eftir hér á Íslandi í stað þess að fá að losa aðrar eignir sínar og fara með þær í burtu og koma aldrei hingað aftur.

Ég fór yfir það í fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra í gær hvernig þessi tala er fundin út, hvernig hún skiptist, 379 milljarðarnir, þar sem aðeins er um að ræða 8 milljarða í peningum, í lausu fé. Aðeins 8 milljarðar í lausu fé og 371 milljarður, hugsanlega, að hámarki, í alls kyns eignum sem fæstar eru tilgreindar. Stærsta eignin sem er tilgreind er Íslandsbanki sem var lagður þar inn á 185 milljarða kr. Það sem eftir stendur eru ótilgreindar eignir og kröfur og ekki er útskýrt frekar hverjar þær eru.

Það er mjög erfitt fyrir okkur sem hér erum að átta okkur á þessu og einnig fyrir almenning í landinu sem hefur ekki jafn góða möguleika á að kynna sér málin og hefur ekki þann aðgang að málum sem við höfum. Þetta var ekki það sem talað var um. Það var ekki talað um að íslenska ríkið fengi í hausinn eignir sem ekki væri hægt að selja. Ég tek Íslandsbanka sem dæmi. Í þrjú ár, frá árinu 2012, í júlí 2012, voru, eftir því sem ég best veit, fyrstu fréttir fluttar af því að það ætti að fara að selja Íslandsbanka. Það voru fjárfestar frá Miðausturlöndum og Kína sem vildu eignast Íslandsbanka. Undirritaðar hefðu verið viljayfirlýsingar um sölu á Íslandsbanka. Síðast í janúar 2015 voru fluttar fréttir í fjölmiðlum um að sala slitastjórnar Glitnis á 95% hlut sínum í Íslandsbanka væri langt kominn. Miðað við bókfært virði hlutar Glitnis í Íslandsbanka gæti jafnvel fengist allt að 150 milljörðum kr. fyrir eignina, að áhugi væri það mikill að jafnvel væri hægt að fá fyrir þetta 150 milljarða kr.

Þetta er dæmi um áhuga, vil ég meina, erlendra aðila á íslenskum bönkum. Hann var enginn í aðdraganda hrunsins. Það hafði enginn erlendur aðili virkilegan áhuga á að eignast banka á Íslandi. Það var reynt að dikta upp einhvern banka upp úr árinu 2000, þegar þessir sömu flokkar og nú stjórna landinu voru að einkavæða bankana, einhvern þýskan banka eða sparisjóð sem var sagður vera áhugasamur um að kaupa Búnaðarbankann, man ég. Sá vissi reyndar ekkert af því, en hans nafni var slengt fram. Það er það næsta sem ég komist því að erlendur banki hafi verið líklegur til að kaupa íslenska banka. Það er enginn áhugi fyrir því. Það hefur komið fram hjá slitastjórn og talsmönnum slitastjórnar Glitnis að þeim hafi ekki tekist að selja Íslandsbanka vegna þess að menn hafi ekki viljað leggja í þetta pening, jafnvel á sömu dögum og á sama tímabili og menn hafa síðan lýst því yfir að mikill áhugi sé fyrir því að kaupa. Menn hafa ekki viljað kaupa þetta og leggja í þetta erlendan gjaldeyri.

Virðulegur forseti. Það er nú farið að styttast í ræðutímanum hjá mér. Ég er búinn að fara lauslega yfir frumvarpið sem hér er til umræðu og lýsa skoðun minn á því og í hvaða tilgangi það er flutt; hvaða rök eru fyrir því og hvaða rök hæstv. fjármálaráðherra færir fyrir því að við eigum að samþykkja þetta lagafrumvarp og gera það að lögum. Mér finnst hálfgerður aumingjabragur á flutningi þessa lagafrumvarps. Það er ekki mikil reisn yfir því að fjármálaráðherra, eða hvaða ráðherra sem er, komi inn með lagafrumvarp með þeim veiku rökum sem þar eru lögð fram og þeim málatilbúnaði sem finna má í umsögnum og athugasemdum með frumvarpinu.

Ég á eftir að fara betur yfir önnur mál varðandi lausn á (Forseti hringir.) uppgjöri þrotabúanna, nauðasamningum við afnám hafta, og mun vonandi gera það í síðari ræðu minni síðar í kvöld.