145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Oftast nær er ástæða þess sú þegar málum er flýtt í gegnum þingið að menn vilja forðast umræðu, og þannig hefur verið lengi að ég tel. Menn vilja forðast rökræðu, menn forðast að opna mál og forðast athygli, það taki tíma í þinginu og fái jafnvel athygli þjóðarinnar. Það held ég að sé rótin að því að menn vilja keyra þetta mál dálítið hratt í gegnum þingið.

Ég held að þingmenn séu ekkert einir um það, það á við um alla þá sem fjallað hafa um þessi mál. Ég vitna til ummæla Indefence-hópsins, ég vitna til fjölmiðla, ég vitna til þeirra sem skrifað hafa greinar um einmitt þetta mál í mörg ár, sem kvarta yfir því núna að þegar stjórnvöld koma og tilkynna að nú sé komin einhver endastöð í málinu, að búið sé að ná einhverju samkomulagi um hlutina, þá fáist ekki svör um hvað felst í samkomulaginu í raun og veru, heldur eru settar fram glærur hingað og þangað á stóru tjaldi með stórum tölum, 850, 1.200, 500, og svo eru ekki leyfðar spurningar. Svo svara menn ekki spurningum heldur ganga úr salnum og embættismenn taka við eða starfsfólk og kynna það sem stendur á glærunum.

Það er ekki boðlegt. Þetta er risastórt mál, þetta er stærsta málið sem við höfum nokkurn tímann fengist við. Við eigum rétt á upplýsingum. Við eigum að krefjast upplýsinga. Þegar við fáum tækifæri til þess að ræða mál í þinginu eins og þetta frumvarp þá eigum við að taka okkur góðan tíma í það til að reyna að opna það eins og við getum upp á gátt, rökræða það út frá þeim gögnum sem við höfum og (Forseti hringir.) krefjast meiri gagna.