145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að á „Hörpusjóinu“ í sumar, einhverju þeirra, var sagt og því haldið fram að búið væri að taka ákvörðun um að leggja skatt á þrotabúin. Ég held að orðið stöðugleikaframlag hafi ekki verið sagt á fundinum. Ég lagði það nú á mig að sitja undir þessu öllu saman, kynningunni, hafði tækifæri til þess. En ég er nú það tortrygginn að eðlisfari þegar kemur að svona málum að ég ákvað að klóra mig í gegnum allar glærurnar, ég man ekki lengur hvað þær voru margar, þær voru allt of margar man ég, maður var farinn að missa einbeitinguna þegar leið á. En þó, þegar kom að glæru 57 rak ég allt í augun í það þennan sama dag að búið var að semja. Það var enginn skattur. Það var búið að semja. Og vegna þess að ég hef nú ekki mikla trú á sjálfum mér hringdi ég í vin og sendi tölvupóst og bað að athuga hvort menn væru sammála mér. Enginn hafði áttað sig á þessu fyrr en þá. Það var þá enginn stöðugleikaskattur. Það var bara blöff. Það var sýning. Það var „sjóið“ sem sett var á svið. Það var búið að semja þá þegar. Það hefur reyndar komið fram eftir það að þegar var búið að semja á þeim tíma.

Þess vegna m.a. þegar lögð eru fram ný gögn og nýr fundur haldinn og nýjar hundrað glærur sýndar fyllast menn skiljanlega tortryggni, og menn eiga að gera það. Við eigum að vera tortryggin og gagnrýnin á mál af þessari stærðargráðu. En við eigum líka að krefjast þess að stjórnvöld loki þessi mál ekki inni í herbergjum sínum, að þau séu rædd opinskátt. Þetta er ekki pólitískt mál. Þetta er þverpólitískt mál. Við eigum rétt á öllum gögnum um það, hverju einu og einasta. Við eigum (Forseti hringir.) að fá sundurliðað hvaða eignir er um að ræða, hvað þrotabúin afhenda (Forseti hringir.) okkur, hvaða kröfur verið er að ræða og á (Forseti hringir.) hendur hverjum. Fyrr eigum við ekki að ljúka þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)