145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir yfirferð hans. Mig langar að spyrja hann hvort hann telji að sú aðferð að ganga til nauðasamninga í stað gjaldþrotaskipta sé eingöngu ávinningur fyrir kröfuhafa, hvort hv. þingmaður sjái engan ávinning í því fyrir íslenskt efnahagslíf, og hvort hv. þingmaður sjái engan ávinning í því fyrir greiðslujöfnuð. Og í þriðja lagi, þar sem honum varð tíðrætt um að með þeirri aðferðafræði væri verið að binda lífeyrissjóði, fyrirtæki og einstaklinga í höftum til næstu ára, hvort hann hafi þá heldur eða réttara sagt hvort hann dragi í efa þau orð seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, sem sagði þegar farið var yfir kynningu þessarar aðferðar að sjá mætti að höftum yrði aflétt á lífeyrissjóði og fyrirtæki strax á árinu 2016.