145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um nauðasamninga. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að slitastjórnirnar, ef Alþingi vill greiða fyrir því með einhverjum breytingum á dagsetningum eða löggjöf, leggi fram og fái samþykkta nauðasamninga þó að slitabúin verði látin greiða stöðugleikaskatt. Það er ekki andstætt í sjálfu sér. Það þýðir einfaldlega að hinir erlendu kröfuhafar fá minna út úr þeim nauðasamningum en þeir fengju út úr þeim nauðasamningum sem hér er verið að liðka fyrir með þessum ívilnunum í lögum.

Hvað varðar orð seðlabankastjóra, þá heyrði ég ekki hin tilvitnuðu orð. En ég hygg að það sé ekki rétt með farið því að að minnsta kosti sagði ég ekki að fólk og fyrirtæki yrðu áfram í höftum. Ég vona sannarlega að hægt verði að losa þau úr höftum, að minnsta kosti að töluverðu leyti. En hins vegar hefur legið fyrir að greiðslujöfnunaráætlunin gerir ekki ráð fyrir að lífeyrissjóðunum verði leyft að fara með nema 10 milljarða á ári til fjárfestinga erlendis. Það eru auðvitað höft á lífeyrissjóðina, það eru viðvarandi höft um langt árabil á fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis. Það er ekki jafnræði að mínu mati og það var það sem við töluðum um í vor þegar sagt var að menn gætu komist undan stöðugleikaskattinum með því að uppfylla stöðugleikaskilyrði en þar yrði fullt jafnræði. Ég sé ekki jafnræðið í því að erlendir kröfuhafar geti farið út með peningana en lífeyrissjóðunum verði takmarkað það hvað þeir megi fara með mikla peninga til fjárfestinga erlendis. Það er einfaldlega ekki jafnræði og það er ekki jafngilt stöðugleikaskattur og stöðugleikaskilyrðin sem hér er verið að liðka fyrir.