145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Munurinn er einfaldlega sá að hér er verið að ákveða að hleypa erlendum kröfuhöfum fyrst út úr höftum með þá frómu von í brjósti að seinna verði hægt að hleypa öðrum út úr höftum. Ef hin fróma von reynist vera óhófleg bjartsýni um framtíðina, þá eru hinir erlendu kröfuhafar farnir út en allir aðrir fastir inni. Það er ekki jafnræði. Ef jafnræði ætti að vera þá ákvæðum við að hleypa öllum út á sama tíma, en ekki erlendu kröfuhöfunum fyrst og hinum svo seinna kannski ef allt gengur vel.

Hitt er líka spurning um það þegar farið er í að létta höftum með hvaða hætti það er gert. Ef þessar áætlanir, eins og mér virðist ýmislegt benda til, grundvallast á því að til að létta þeim þurfi að laða hingað inn verulegar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri, eins og þeim 50 milljörðum sem hingað hafa verið að koma á allra síðustu mánuðum sem eru að sækja í vaxtamunarviðskipti, þá vitum við líka hvað það þýðir. Það þýðir að Ísland þarf um langt árabil að bjóða hærri vexti og væntanlega umtalsvert hærri vexti en eru í nágrannalöndunum. Er það sú sviðsmynd sem við viljum leggja grundvöllinn að, að Seðlabankinn þurfi um langan tíma að halda vaxtastigi svo miklu hærra en í nágrannalöndunum að hægt sé að toga peninga hingað inn til að halda uppi þeirri sviðsmynd?