145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann fyrst beint út hvort hann hygðist styðja frumvarpið og greiða atkvæði með því. Ég skil vel að það sé vandkvæðum háð miðað við hvað þetta gerist allt saman hratt, eins og hefur réttilega verið gagnrýnt hérna.

Ég er farinn að velta fyrir mér þegar kemur að gagnrýni á þetta frumvarp í þeim fínu ræðum sem hafa verið haldnar hér í dag hvað er mikið farið út í söguna, ekki síst á seinasta kjörtímabili, og meginaðferðafræðina á bak við losun fjármagnshafta. Ég sé eitthvað í þessu frumvarpi sem auðveldar ferlið sem ríkir sátt um, í það minnsta í meginatriðum, óháð því hvort menn vilji frekar stöðugleikaskatt eða stöðugleikaframlag með skilyrðum og öllu því.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður styðji frumvarpið og ef ekki, þá hvers vegna ekki nákvæmlega? Er það vegna þess að þetta gerist of hratt eða það sé á einhvern hátt óþarft eða eitthvað því um líkt? Eftir þessa miklu umræðu sem hefur átt sér stað hér í dag og efnismiklu og góðu þá held ég að við þurfum á endanum að fara að spyrja hvert annað út í það og vita hvaða ákvörðun við tökum og hvers vegna þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál.