145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er nú svo um okkur í Samfylkingunni að við gerum ráð fyrir því að málið komi til atkvæða eftir þingflokksfund á morgun og eigum auðvitað í okkar hópi eftir að skiptast á skoðunum áður en við tökum afstöðu til málsins. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það skorti mikið á bæði upplýsingar í málinu og rýni sem gerir út af fyrir sig erfitt að taka afstöðu til þess hvort koma þurfi til þessara tæknilegu ívilnana eða ekki.

Hitt er svo ekkert launungarmál að við höfum lengi talið að ef hægt væri að ná samningum sem væru jafn gildir skattlagningu þá mundum við vilja styðja slíka leið. En til þess þarf að sýna fram á að leiðin sé jafn gild og það þarf að sýna fram á jafnræði aðila í henni því að það voru forsendurnar sem voru gefnar í vor. Það er að minnsta kosti ekki komið fram enn þá en það er enn tími fram að atkvæðagreiðslu til að leggja fram gögn og skýringar og skila upplýsingum sem gætu styrkt ákvarðanatöku í þinginu.