145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hafa legið í loftinu frá upphafi að mikil áhersla sé hér í þingsal og ekkert síður úti í samfélaginu, býst ég við, á hversu miklar upphæðir þetta verði, nokkuð sem mér finnst persónulega, miðað við það sem mér hefur tekist að skoða um þessi mál öll, ekki skipta öllu máli. Hér er verið að reyna að leysa verkefni, það er ekki verið að reyna að afla ríkinu tekna, það er ekki verið að refsa neinum í sjálfu sér, það er að minnsta kosti ekki markmiðið að refsa einhverjum, það getur kannski verið hluti af stærri markmiðum ef við ætlum að kalla þetta skattrefsingu eða kylfu eins og leiðin var einhvern tíma kölluð. Áherslan er alltaf á tölurnar og upphæðirnar.

Mér sýnist, eins freistandi og það er að fárast út af þessum skatti og reyna að koma honum á, heila markmiðið með skattinum vera að gera hina leiðina fýsilega, ekki síst til að tryggja að lögmæti þeirrar leiðar verði óumdeilt svo að menn fari ekki að kæra og tefja með öllu bröltinu sem því fylgir. Menn hafa sínar meiningar um hvernig slík dómsmál mundu fara. Líklega yrði þessi skattur úrskurðaður löglegur en það mundi samt taka tíma að kljást við það allt saman og þar eru líka óvissuþættir sem eru ekkert endilega fyrirsjáanlegir. Eins og ég skil þetta ferli þá er það beinlínis markmiðið að reyna að koma sem flestum í gegnum ferli sem er hvað minnstur ágreiningur um að sé lögmæt aðgerð, sér í lagi til þess að það verði fyrirsjáanlegt og með sem minnstum ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þess vegna velti ég fyrir mér: Telur hv. þingmaður að það væri ásættanlegt að Seðlabankinn setti skilyrði, kröfuhafar samþykktu þau en samt færum við skattaleiðina?