145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óþarfi að svara síðustu spurningunni vegna þess að þannig er málið ekki vaxið. Málið er þannig vaxið að Seðlabankinn hefur sett fram skilyrði. Kröfuhafarnir hafa fyrir sitt leyti fallist á skilyrðin en hafa síðan óskað eftir því að gerðar verði viðbótarlagabreytingar til að gera þeim málið auðveldara. Það er ekkert sem knýr þingið til að verða við slíkri ósk. Það er í sjálfu sér bara viðbótarívilnun og algerlega í hendi þingsins hvort slík ívilnun verður veitt eða ekki. Skilyrðunum hefur verið lýst og annaðhvort ljúka slitabúin við að uppfylla þau og klára samþykktir sín megin eða skatturinn fellur á. Það hvílir engin skylda á Alþingi að samþykkja slíkar ívilnanir á lögum til þess að mæta því. Það er algerlega sjálfstæð ákvörðun Alþingis hvort það vill auka líkurnar fyrir hina erlendu kröfuhafa á því að þeir nái að klára málið sín megin. Ef þeir ná ekki að klára málið sín megin þá fellur skatturinn einfaldlega á. Það er ekkert ólöglegt eða ósanngjarnt við það því að þetta eru bara gildandi leikreglur og þær leikreglur sem við settum í vor. Við erum á engan hátt skuldbundin til að draga úr þeim kröfum sem þá voru settar fram.