145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst rétt að árétta eitt atriði í ljósi þess sem fram kom í máli hv. þingmanns í ræðunni hér á undan, nokkuð sem hefur svo sem borið á líka í öðrum ræðum í umræðum um málið. Það eru einhverjar áhyggjur af fé, menn eru farnir að deila svolítið um hvernig eigi að eyða fénu eða hversu mikið fé komi eftir þessum tveimur leiðum, stöðugleikaskattinum eða nauðasamningum. En þá vil ég árétta það og fjallað var um það sérstaklega í sumar þegar lög um stöðugleikaskatt voru samþykkt að mjög ströng skilyrði eru fyrir ráðstöfun þess fjár sem mundi berast ríkinu hvort sem væri með stöðugleikaskatti eða eftir nauðasamninga kröfuhafanna með svokölluðu stöðugleikaframlagi.

Það er nefnilega alls ekki tilgangur skattsins að afla ríkissjóði tekna til að standa undir útgjöldum ríkisins heldur til þess einmitt að skapa forsendur fyrir losun fjármagnshafta með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi.

Þá kem ég að því sem mig langar að spyrja hv. þingmann um hvort hann taki ekki undir það með mér að bæði það mál sem við fjöllum um í dag, sem eru þessar tæknilegu breytingar, og eins líka sú kynning sem hefur verið á stöðugleikaframlaginu eða stöðugleikaskilyrðunum í síðustu viku, þ.e. er hann ekki sammála mér að markmiðið er það að geta lyft fjármagnshöftum? Getum við ekki verið sammála um það að þau sem slík eru slæm og við þurfum að lyfta þeim? Ef hann er sammála því langar mig að spyrja hann hvernig hann sjái fyrir sér hvernig best sé að gera það, hvort þessi leið sé ekki betri til þess en stöðugleikaskatturinn vegna þess að þó að kröfuhafarnir færu leið stöðugleikaskatts þá yrðu þeir eftir hérna inni, þeir færu ekkert þrátt fyrir að hafa greitt háan stöðugleikaskatt. Þeir sætu enn þá inni með eignir hér.