145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði bara af því að mönnum verður svolítið tíðrætt um það að með því máli sem liggur fyrir og er til umræðu sé verið að liðka sérstaklega til fyrir kröfuhöfum, verið sé að gera þeim sérstakan greiða. Fyrir mér horfir þetta öðruvísi við, miklu heldur þannig að hér sé verið að liðka fyrir því að hægt sé að koma þessu liði, því að það orð hefur verið notað um ýmsa í hópi kröfuhafa, út úr landinu þannig að vera þeirra hér skapi ekki vanda, efnahagslegan vanda til framtíðar. Málið sem er til umræðu er liður í því, að mínu mati, og hefur það að markmiði að liðka fyrir íslenska ríkinu öllu heldur. Það kemur því á óvart þegar hv. þingmaður lýsti því yfir og fjallaði reyndar um eina tiltekna grein í breytingartillögu sem meiri hluti nefndarinnar lagði til, og ég fagna því að hann sagðist fagna þeirri breytingartillögu og greiða henni atkvæði, en þá kemur mér á óvart að hv. þingmaður skuli lýsa því yfir að hann muni sitja hjá og ekki taka afstöðu til málsins vegna þess að upplýsingar séu ónógar. Ég velti fyrir mér, hefur hv. þingmaður tekið sérstaka upplýsta ákvörðun til dæmis hvað varðar stöðugleikaskattinn og hvaða áhrif stöðugleikaskattur og greiðsla hans mundi hafa hér til framtíðar, eftir árið 2016? Er staðan eitthvað betri hvað það varðar? Mér hefur heyrst hv. þingmaður tala sérstaklega um að þetta mál, af því að það tengist nauðasamningum, sé eitthvað sérstaklega óskýrt.