145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í einni af síðustu glærukynningum og glærusýningum ríkisstjórnarinnar, sem segist þó hvergi koma að þessum málum nema með því að kynna það sem liggur fyrir, í glæru 12 — ég veit ekki hvort sú sýning var í Hörpu eða í einhverjum öðrum sal úti í bæ, skiptir ekki öllu máli — komu fram upplýsingar sem ég held að séu marktækar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heildarvandinn vegna slitabúanna þriggja nemur 815 milljörðum kr. …“ — þ.e. heildarvandinn af uppgjöri þrotabúanna nemur 815 milljörðum kr.

Samkomulagið og leiðin sem var kynnt, þ.e. stöðugleikaframlagsleiðin, leysir hins vegar vanda upp á 379 milljarða kr., að sögn, að algeru hámarki og það hámark fæst með því að leggja fram eignir, m.a. banka sem metinn er á einum á móti bókfærðu virði sínu sem er held ég algerlega fáheyrt ef við berum saman sambærilega banka eins og þarna er verið að tala um, þ.e. Íslandsbanka. Meðalverðmat á bankastofnunum í Evrópu er undir einum (Gripið fram í: Langt undir einum.) og stórir bankar eru meira að segja metnir á 0,5–0,6 af bókfærðu virði sínu. Danske Bank er metinn á rétt tæplega einum, DNB er metinn á undir einum, 0,9 eða tæplega það, o.s.frv. Hér veigra menn sér ekki við það að leggja þetta í púkkið upp á 379 milljarða sem lausn á 815 milljarða vanda. Munurinn þarna á milli er ríflega 400 milljarðar kr., sem er þá óleystur vandi sem er verið að ýta inn í framtíðina og á ekki að leysa í þessari lotu og verður ekki leystur. Síðan reikna menn sig upp í þessa tölu — 856 milljarðar voru það reyndar í einni glærusýningunni — með skapandi reikningsaðferðum þar sem er ýmis kostnaður er tíndur til, rekstrarkostnaður, skaðleysissjóðir, endurheimtur úr eignasafni Seðlabanka Íslands, lenging á lánum og skuldum ríkissjóðs o.s.frv., þar til sú tala sem menn vilja komast í til að ná þessum jöfnuði er fundin. Allt þetta skulum við af jákvæðni kalla skapandi útreikninga, skapandi framsetningu á gríðarlegum vanda, en þetta stenst ekki nokkra einustu skoðun.

Það er oft gott þegar menn eru í vafa um mál og vilja athuga hvort rök þeirra eru gild og góð að athuga og skoða hvað aðrir hafa að segja, t.d. þeir sem standa utan stjórnmálanna, þeir sem hafa kynnt sér mál og hafa þekkingu á þeim málum sem hér um ræðir.

Ég ætla að vitna hér í mann sem heitir Sveinn Valfells og hefur til margra ára sett sig inn í mál af þessu tagi og skilað inn umsögnum til Alþingis um mál af þessari tegund. Hann segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra virðist hafa gleymt öllum helstu loforðum ríkisstjórnarinnar um afnám hafta. Af máli hans mátti ráða að mikill munur væri á kynntri stefnu og framkvæmd áætlunarinnar. Ekki er hægt að sjá annað en að áhættufjárfestar föllnu bankanna og aflandskrónueigendur eigi að fá forgang úr höftum. Á sama tíma og áhættufjárfestum verður hleypt úr höftum hefur afnámsferli fyrir almenning, atvinnulíf og lífeyrissjóði ekki einu sinni verið kynnt. Eiga heimilin að mæta afgangi?“

Svarið við því hlýtur að vera já.

Sveinn Valfells segir einnig, með leyfi forseta:

„Vandinn er skilgreindur upp á 815 milljarða, hins vegar eru slitaframlögin ekki upp á nema 379 milljarða, eftir virðast standa 400 milljarðar af krónueignum sem kunna að fara úr landinu og hafa þannig neikvæð áhrif á íslensku krónuna og rýra kaupmátt á Íslandi og auka verðbólgu og þessi vandi hefur ekki verið leystur, honum virðist eingöngu hafa verið hliðrað fram í tímann.“

Jafnframt er haft eftir Sveini:

„Gert er ráð fyrir að kröfuhafarnir fjármagni nýju bankana og fjárfesti með öðrum hætti til langs tíma hér á landi. Sveinn telur að með þessu fái áhættufjárfestar gömlu bankanna mikinn skattafslátt fyrir að veita nýju bönkunum lán sem þeir gætu fengið annars staðar.“

Með öðrum orðum, kröfuhafarnir í þrotabú gömlu bankanna ætla að fjárfesta í nýju bönkunum og veita þeim lán sem bera auðvitað vexti sem þeir fá greidda fram hjá höftum því að vextir af lánum eru ekki læstir í höftum. Þetta er góður bisness, þetta er fínn bisness fyrir kröfuhafa. Þeir hafa hvergi nokkurs staðar í heiminum hærri vexti en á Íslandi. Þetta er draumalausn fyrir þá, auk þess sem þeir ætla að skilja eftir hér í bönkunum þriðjunginn af innlánum sem þeir eiga, þ.e. rétt um 100 milljarða kr. sem þeir ætla að skilja eftir af lánum í íslenska bankakerfinu.

Það hefur lítið verið rætt um það hvað kröfuhafar sjálfir fá út úr þessu dæmi. Þetta snýst líka um það hvað þeir eru sáttir við að komast með af eignum út úr höftunum. Það er auðveldlega hægt að reikna sig til þess því að þær upplýsingar fást náttúrlega ekki frekar en aðrar nauðsynlegar upplýsingar sem á þarf að halda, en það er léttilega hægt að reikna út að það fer ekki undir 500 milljarða kr. og verður líklega talsvert meira sem þeir taka út úr gjaldeyrishöftum verði af þessum nauðasamningum.

Hvenær mun það gerast? Það mun í fyrsta lagi gerast næsta sumar sem einhver hreyfing kemst á þessi mál svo framarlega sem öll þessi mál ná fram að ganga. Hvað mun þá gerast? Þá fara kröfuhafar fyrstir af öllum með eignir sínar út úr höftum, enda er ekki neitt annað plan. Það er ekki neitt plan um að aðrir fái lausn sinna mála hvað þetta varðar. Plan númer eitt er að kröfuhafar komist með dótið sitt út úr höftum síðla næsta sumars eða næsta haust. Hvað fara þeir þá með mikið? Ekki undir 500 milljörðum kr. Það eru yfir 500 milljarðar kr. sem á að losa úr höftum án þess að búið sé að leggja fram eina einustu áætlun um hvernig eigi að leyfa til dæmis lífeyrissjóðum að fjárfesta utan hafta, hvað þá heimilum og fyrirtækjum.

Við verðum því áfram í höftum, almenningur á Íslandi, rétt eins og Sveinn Valfells benti á í viðtali og grein sinni. Almenningur á Íslandi verður áfram í höftum og fyrirtæki á Íslandi verða áfram í höftum. Það er ekkert rými til þess, ef á að halda jöfnuði í greiðsluflæði milli íslenskrar krónu og erlendra mynta, að hleypa út meira en 25–30 milljörðum á ári úr landinu, kannski 30 milljörðum max, fyrir lífeyrissjóði sem þurfa að ávaxta fyrir 150–200 milljarða á ári. Það er ekkert rými fyrir það, það er ekkert pláss fyrir það. Það er ekkert pláss fyrir fyrirtæki sem þurfa að höndla með gjaldeyri, hvað þá heimilin. Við verðum áfram í höftum að sinni. Undan því verður ekki komist. Það hefur engin áætlun verið lögð fram um annað, virðulegi forseti.

Ég vil að lokum, fyrst ræðutími minn er farinn að styttast og ég veit ekki hvort þetta verður síðasta ræðan hér í kvöld eða hvort ég kemst í aðra ræðu, lýsa vonbrigðum mínum yfir því að þingmenn skuli ekki taka virkari þátt í þessari umræðu og ræða það risastóra mál sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar þó að það væri ekki nema til að skiptast á skoðunum, skiptast á rökum til að leiða bestu leiðina fram í málinu. Það er leynd yfir gögnum. Við fáum ekki upplýsingar úr gögnum sem við þurfum á að halda. Leynd er sama og spilling í þessu tilfelli, ef verið er að halda gögnum leyndum frá Alþingi og ég fullyrði að það er verið að gera það. Þingmenn fá ekki aðgang að þeim gögnum sem þeir þurfa að hafa. Það er leynd yfir þeim og við eigum ekki að sætta okkur við það. Leynd er spilling.