145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get lítið annað gert en að taka undir orð hv. þingmanns. Ég hef einmitt miklar áhyggjur af þeim 300 milljörðum sem áttu að vera framar í röðinni, það átti að vera búið að leysa það mál á undan því sem við erum að tala um hér. Þar eru 300 milljarðar og 450 milljarðar eru í skattafslátt. Menn hafa talað um það hér að við séum að gefa kröfuhöfunum mesta skattafslátt sem sögur fara af í Evrópu að minnsta kosti og jafnvel þó að víðar væri leitað. Þetta vilja framsóknarmenn gera. Ég get ekki annað en nefnt framsóknarmenn hér vegna þess hvaða mynd þeir sýndu af sér á síðasta kjörtímabili og hvernig þeir töluðu um kröfuhafa, sem hrægamma sem ætti alls ekki að semja við og það ætti að skrúfa út úr þeim milljarða til þess að bæta hag íslenskrar þjóðar með látum og gauragangi. Núna koma þeir ekki einu sinni í ræðustól til þess að fara yfir málið með okkur þegar þeir mæla með því að hrægammarnir sem þeir töluðu svo fjálglega um á síðasta kjörtímabili fái 450 milljarða afslátt hjá íslenskri þjóð. Er þetta ekki svolítið brjálæðislegt, herra forseti?