145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir að auðvitað sé það markmið okkar allra að leiða þetta mál fram til lausnar með þeim hætti að til farsældar horfi fyrir íslenska þjóð, þ.e. að okkur takist með þessum aðgerðum að búa svo í haginn að við getum aflétt gjaldeyrishöftum í fyllingu tímans. Það var þess vegna sem ég, ásamt reyndar mörgum öðrum, var ákaflega feginn því þegar hæstv. ríkisstjórn kom á sínum tíma fram með tillögur sínar um stöðugleikaskatt. Ég taldi sjálfur að það væri hin rétta leið, enda var hún í þeim anda sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt upp með, og að hún mundi leysa málið. Ég hélt að það væri algjörlega í gadda slegið að stöðugleikaskattur upp á 39% mundi eyða allri þeirri krónumengun, svo ég vísi nú til orða seðlabankastjóra á sínum tíma, sem er að finna í íslenska hagkerfinu. Síðan gerðist það eins og hv. þingmaður lýsti hérna áðan að ákveðið var að fara aðra leið og við fengum nánast engar upplýsingar um hana.

Það var jafnframt sagt á sínum tíma að þetta ætti allt að byggja á tærleika og gagnsæi. Það var á þeim grundvelli sem Indefence krafðist þess að lokum að fá að sjá tiltekin gögn. Við í þinginu, Indefence og almenningur höfum fengið tiltölulega naumar upplýsingar á allra síðustu metrunum. Ég spyr hv. þingmann hvort honum finnist það ekki mikil ósvinna að vinna málið með þeim hætti. Í reynd leiðir það til þess að okkur er ómögulegt að reyna að teygja okkur til samkomulags. Hvað finnst hv. þingmanni um það?

Svo er aftur hitt: Er ekki hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það sé mikil söguleg kaldhæðni fólgin í því að það skuli vera flokkur hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem að lokum býr til þá leið sem (Forseti hringir.) gerir það að verkum að hrægömmunum er nú svo feitt (Forseti hringir.) um hjartarætur sem sjá má?