145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög mörgum spurningum ósvarað að því er varðar það mál sem við ræðum. Ein þeirra er til dæmis: Hver verða áhrif þessa máls, stöðugleikaframlagsleiðarinnar og lífeyrissjóðanna? Ég tek þetta hér upp vegna þess að hv. þingmaður nefndi lífeyrissjóðina og möguleika þeirra á næstu árum til þess að komast út með sitt fé. Ég hef vissan skilning á því að kröfuhafarnir eru í reynd, með því að reiða fram mjög háar upphæðir, að kaupa sér forgang að því að komast út með sitt fé. Það eru gríðarlegar upphæðir. Þeir komast út með 500 milljarða hið minnsta. Það var alltaf undirlagt og ein af höfuðforsendunum í þessu máli að því er varðar möguleika á því að flytja fjármagn úr landi að við mundum að lokum standa uppi með algjört jafnræði, jafnræði ekki bara millum kröfuhafa og fyrirtækja á Íslandi og almennings, heldur var ekki síst talað um mikilvægi þess að lífeyrissjóðirnir gætu sem allra fyrst komist út með sitt fé.

Nú blasir það við, eins og upplýst var í dag af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að samkvæmt því plani sem lagt var fyrir um þróun næstu ára í efnahags- og viðskiptanefnd er svigrúmið 30 milljarðar fram til ársins 2022. Þar af eiga lífeyrissjóðirnir að geta farið út með 10 milljarða. Fjárfestingarþörf þeirra á hverju ári er í kringum 150 milljarðar og bráðum verða þeir búnir að kaupa upp allt Ísland. Hvert eiga þeir þá að fara til að ávaxta sitt fé?

Ég óttast að þetta geti gjörbreytt eðli lífeyrissjóðanna og það muni í reynd leiða til þess að lokum að við stöndum uppi með sjóði sem eru orðnir að eins konar gegnumstreymissjóðum. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af áhyggjuefnum Indefence. Ég spyr (Forseti hringir.) hv. þingmann: Ber hún ekki ákveðinn kvíðboga fyrir framtíð lífeyrissjóðanna og hlutverki þeirra í íslensku samfélagi?