145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég held að full ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af því hvernig lífeyrissjóðirnir munu pluma sig í því umhverfi sem virðist blasa við að öllu óbreyttu. Það hefur komið fram í umræðunni að fjárfestingarþörf þeirra sé að fjárfesta um 200 milljarða en svigrúmið sé eingöngu 10 milljarðar næstu sjö árin. En svigrúmið er bara 30 milljarðar. Af því væru þá lífeyrissjóðirnir með 10 milljarða. Þá spyr maður: Hvað er þá eftir fyrir aðra?

Lífeyrissjóðirnir hafa auðvitað átt í miklum vanda frá því að gjaldeyrishöftin voru sett á að ávaxta fjármuni sína. Nú er þetta svokallaða SALEK-samkomulag í loftinu og búið að skrifa undir. Spurning hve margir gangast inn á það. Er ekki hluti af því samkomulagi, eins og ég skil það, að hluti af kjörum fólks, bættum kjörum í framtíðinni, eigi að vera auknar greiðslur inn í lífeyrissjóði? Sjóðirnir eiga þá eftir að standa frammi fyrir enn meiri þörf á að koma þeim fjármunum fyrir félaga sína í ávöxtun. Hér innan lands í okkar litla hagkerfi dugar það ekki til, svo vandinn verður enn þá meiri en menn reiknuðu kannski með að þeir þyrftu (Forseti hringir.) að ávaxta féð fyrir, um 200 milljarða.