145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi líklegt verðmæti bankanna eða mögulegt endursöluverð þeirra er það ósköp einfalt í tilviki Íslandsbanka, allt sem bankinn fer á undir fullu nafnverði er bara tap fyrir ríkið. Það er þá minna stöðugleikaframlag, afsláttur af því. Ég er enginn sérstakur spekingur í því að meta verðmæti banka, en eitt veit ég um íslensku bankana: Þeir eru í fyrsta lagi á Íslandi, og þykir kannski ekki í umheiminum, eða jafnvel hér innan lands, sérstaklega á vísan að róa varðandi það að kaupa í þeim. Þeir eru í öðru lagi mjög hátt fjármagnaðir. Eigið fé þeirra er mjög hátt hlutfall af efnahagsumsvifum þeirra. Það er gott. Þeir voru settir af stað mjög sterkir og eru með á milli 24% og 27–28% í eiginfjárhlutfall. En það þýðir líka að erfitt er að ná mikilli ávöxtun á það eigið fé. Þetta eigið fé verður hins vegar vonandi ekki hægt eða leyft að greiða mikið út vegna þess að hér eru að koma reglur sem gera kröfur til mikils eiginfjárstyrks. Þegar það bætist svo við að afkoma bankanna undanfarin ár hefur ekki byggst á sterkum grunnrekstri heldur uppfærslu á eignasafni er ekki líklegt að þeir þyki sérstaklega góðir til kaups af því að þeir eru í eðli sínu dýrir af því að það er mikið eigið fé í þeim en veikur grunnrekstur. Það finnst mér ekki mæla með því að þeir mundu nálgast þau endursöluhlutföll sem kannski sterkustu og best reknu bankar Evrópu eða annars staðar ná, þannig að ég efast mjög um að þeir færu nema á 0,6–0,7 margfaldarann.

Er vandinn að hluta til geymdur? Já, það er alveg augljóst mál og það er viðurkennt í greinargerð Seðlabankans. Þar sést meðal annars grundvallarmunur á stöðugleikaskattsleiðinni og stöðugleikaframlagaleiðinni, að í stöðugleikaframlagaleiðinni er hluti vandans geymdur í formi þess að þar eru fjármagnaðar skuldbindingar. Ég hef hins vegar alltaf talað fyrir því að það væri gott að í þessu væri skynsamleg samningaleið, en hún verður að vera nógu hagstæð fyrir báða aðila. Mér fannst grunsamlegt, og finnst enn, hversu fljótir kröfuhafarnir voru að hoppa á þetta.