145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður sagði verður niðurstaða samningaleiðarinnar að vera hagstæð fyrir báða. Það þarf að vera hafið yfir vafa að hún sé nægilega hagstæð fyrir okkur Íslendinga. Hvert er hið endanlega próf á það? Það eru ekki þær krónur og þeir aurar sem við munum fá út úr því. Ég get alveg fallist á það sem kom fram hjá til dæmis hv. þingmönnum Sigríði Andersen og Helga Hrafni Gunnarssyni hér fyrr í kvöld, þó að ég telji að það sé sjónarmið sem eigi eigi síður að horfa til ef báðar leiðirnar eru jafn gildar. En það verður að vera hafið yfir allan vafa að niðurstaðan núna leysi vandamál Íslands varðandi krónueignina og tryggi fjármálalegan stöðugleika þegar til framtíðar er litið. Í þessari umræðu og aðdraganda hennar hafa því miður komið fram efasemdir. Það hafa vaknað spurningar sem ekki hefur verið svarað. Indefence, sem hefur reynst ansi sannspátt um margt, ekki alla hluti en um afar margt, hefur til dæmis haft efasemdir um hvort þessi leið dugi þegar til framtíðar er horft. Af hálfu Indefence hafa komið fram rökstudd viðhorf sem benda til þess að verið sé að skjóta kúf af vandanum af krónueigninni inn í framtíðina. Það mun ekki koma í ljós fyrr en hugsanlega eftir árið 2022. Það er hættan og það er þess vegna sem ég er þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að skoða þetta mál miklu betur. Allra best hefði verið ef hægt hefði verið að ná samkomulagi millum allra og ólíkra aðila (Forseti hringir.) sem koma að þessu máli.