145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni hefur orðið tíðrætt um kynningu ríkisstjórnarinnar á afnámi fjármagnshafta sem haldin var síðasta sumar. Hv. þingmaður hefur haldið því fram að þar hafi sjónum einkum verið beint að stöðugleikaskatti en ekki stöðugleikaframlagi. Því hefur jafnvel verið haldið fram í ræðum að stöðugleikaskilyrðin hafi verið einhverjir afarkostir en forgangsatriðið hafi verið stöðugleikaskatturinn.

Getur hv. þingmaður lýst þessu örlítið fyrir mér? Fyrir framan mig hef ég umrædda kynningu þar sem fram kemur að lausn stjórnvalda gagnvart slitabúum sé tvíþætt, annars vegar stöðugleikaskilyrði og ef slitabú uppfylla ekki stöðugleikaskilyrðin leggist stöðugleikaskattur á slitabúin. Á þessari glæru, númer 13 í þessari kynningu, eru sérstaklega sýndir þessir tveir kostir á svokölluðu skipuriti, stöðugleikaframlagið annars vegar og stöðugleikaskatturinn hins vegar. Þess vegna spyr ég: Af hverju hefur margítrekað verið farið rangt með þetta atriði og vísað í þessa kynningu með þeim hætti að hún hafi einungis lotið að stöðugleikaskattinum?

Í framhaldi af því vil ég spyrja hv. þingmann annars. Aðstæður hafa ekkert breyst frá því að þetta var kynnt í sumar og við samþykktum á þingi í sátt og samlyndi bæði lög um stöðugleikaskatt og breytingar á reglum um nauðasamninga, ýmsum lögum. Hv. þingmaður er fullur tortryggni í garð leiðar stöðugleikaframlagsins og ég spyr: Er engin tortryggni í hans huga gagnvart stöðugleikaskattinum?