145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ef ég byrja á að svara þessum þremur spurningum í öfugri röð var ég, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, tortrygginn í garð stöðugleikaskattsins vegna þess að ég taldi að rísa mundu lögfræðileg ágreiningsefni sem honum tengdust. Ég var fullvissaður um það yfir þennan stól af hæstv. ráðherrum að hann væri pottþéttur, og reyndar utan þings af starfsmönnum Seðlabankans sem lýstu fyrir mér og mínum þingflokki þeirri miklu lögfræðilegu vinnu sem þar væri á bak við. Þá taldi ég að þessi leið væri pottþétt. Ég vil fara hina pottþéttu leið, þannig hef ég breyst eftir að ég eltist, og þess vegna tel ég fínt að fara hana, hún eyði örugglega hinum mengandi krónum úr fórum kröfuhafanna.

Varðandi aðra spurninguna, um hvað hafi breyst síðan í vor, gefur hv. þingmaður sér rangar forsendur sér ef hún á við með því að ég hafi breytt afstöðu minni. Hv. þingmaður getur skoðað lokaafgreiðslu þess máls við Alþingi og þá mun hún sjá að ég var ekki viðstaddur þá atkvæðagreiðslu. Ég fór úr henni vegna þess að ég vildi einfaldlega ekki að lokum bera ábyrgð á þessu vegna þess að á mig sótti tortryggni.

Varðandi það að hér hafi ítrekað verið talað um að ekki hafi verið minnst á stöðugleikaframlagið í kynningunni í Hörpu getur hv. þingmaður, þegar hann kemur heim til sín fyrir svefninn, leikið aftur af neti þingsins þær ræður sem ég flutti áðan og fyrr í dag. Þar segi ég algjörlega skýrt að það hafi komið fram á einni glæru en hv. þingmaður upplýsir mig um að það hafi verið glæra 13. Það kom hins vegar skýrt fram í lok þeirrar kynningar eða þegar hún var búin að þeir sem kynntu hlupu yfir margar glærur. Ég sá þessa glæru aldrei á skjánum. Ég hef haldið því fram og því hefur ekki verið hafnað. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmaður skoðar fréttir af Hörpufundinum finnur hún heldur ekki orðið stöðugleikaframlag.