145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa nánast öllu af þessu á bug. Hv. þingmaður getur sannfært sjálfa sig ef hún spilar upptökur af ávörpum hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra í Hörpu og sér að þar er ekki talað um stöðugleikaframlög. Það er eins og þeir ágætu herramenn viti ekki að það hugtak sé til. Annað kom þó síðar á daginn.

Fram að þeim degi að minnsta kosti sem umræðan hin fyrsta um það mál hófst á þingi talaði hæstv. forsætisráðherra enn þá um stöðugleikaskatt. Allar tölurnar sem hrutu af munni hæstv. forsætisráðherra fyrir, á og í kjölfar kynningarfundarins í Hörpu gengu út á eitt, að íslenska ríkið mundi fá 850 milljarða. Hann talaði aldrei um stöðugleikaframlag. Af hverju? Vegna þess að hann vildi ekki fara þá leið. Þess vegna tókst forusta ríkisstjórnarinnar, leiðtogar stjórnarflokkanna, á um þetta mál fram á haustdaga. Þeir voru enn að takast á um málið þann dag sem Seðlabankinn átti að vera með kynningu sína fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er ástæðan fyrir því.

Hv. þingmaður getur farið í gegnum allar fréttir, a.m.k. kosti dagana í kjölfar kynningarfundarins í Hörpu, án þess að finna orðið stöðugleikaframlag. Að minnsta kosti fann ég það ekki. Ástæðan fyrir því að ég fór að lokum út úr atkvæðagreiðslu þegar menn voru að ganga frá þessu hér í sumar var sú að í umræðunni rann upp fyrir mér að það var ekki ætlunin að fara þessa stöðugleikaskattsleið. Menn voru að hugsa um allt annað og á þeim tímapunkti taldi ég mig ekki hafa forsendur til að fylgja henni. Áður var ég búinn að lýsa miklum fögnuði á þinginu og í fjölmiðlum gagnvart stöðugleikaskatti. Svo einfalt er það nú.