145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði nú ekki að móðga hv. þingmann og hef bara orð hans fyrir því að hann skilji málið. Ef hann segir að hann skilji málið til fulls þá treysti ég auðvitað og trúi. Ég var hins vegar bara að vitna (Gripið fram í.) til ummæla margra hv. þingmanna sem látið hafa þau orð falla að þeim þætti málið býsna flókið og hefðu viljað fá lengri tíma til þess að leggjast yfir það og skoða það gaumgæfilega. Ég tek alveg undir það sjónarmið. Það var nú bara það sem ég sagði. Ég tek alveg undir það sjónarmið.

Ég skil vel að menn þurfi tíma til þess að fara yfir málið og skoða það frá ýmsum sjónarhornum. Þetta er ekkert hefðbundið mál. Þetta er stórt mál. Það var nú bara það sem ég gerði, að lýsa yfir skilningi mínum á þessum ummælum hv. þingmanna og bætti um betur, ég slóst í hóp með þeim vegna þess að ég viðurkenni alveg að þegar kemur að stöðugleikaskilyrðunum er þar margt sem ég hef engar forsendur til þess að meta, (Forseti hringir.) ég hef engar forsendur til þess að meta það. Ég treysti mér fróðari mönnum. (ÖS: Mér?)