145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er einn af fjórum alþingismönnum sem sátu allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á dögunum og við fengum þar að kynnast hinu merka starfi sem fram fer innan Sameinuðu þjóðanna. Við fengum góða kynningu á heimsmarkmiðunum, en eins og kunnugt er hafa Sameinuðu þjóðirnar, 193 ríki, öll náð saman um heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin eru 17. Þau eru stór og víð, en með hverju og einu þeirra fylgja nokkur undirmarkmið sem skýra þau enn frekar.

Mig langar til að telja upp heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. Þau eru eftirfarandi:

Engin fátækt, ekkert hungur, góð heilsa, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, hreint vatn og salernisaðstaða, sjálfbær orka, góð atvinna og hagvöxtur, nýsköpun og uppbygging, aukinn jöfnuður, sjálfbærar borgir og samfélög, ábyrg neysla, verndun jarðar, líf undir vatni, líf á landi, friður og réttlæti og alþjóðleg samvinna.

Þetta eru sannarlega verðug markmið. Ég segi, herra forseti, að mér finnst nánast kraftaverk að 193 ríki hafi náð saman um þessi merku markmið.

Nú er verið að vinna að viðmiðum fyrir þjóðirnar til þess að fara eftir til þess að þær geti metið hvernig þeim tekst til við að ná þessum markmiðum fram til ársins 2030. Viðmiðin verða auðvitað öll á þessum þremur sviðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. að meta efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif hvers markmiðs. Við höfum þarna verk að vinna. Mér finnst það afar spennandi og hlakka til að taka á því með stjórnvöldum við að útfæra þessi markmið.


Efnisorð er vísa í ræðuna