145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ákvörðun Seðlabanka Íslands frá því í morgun um að hækka stýrivexti í 5,75% er grafalvarleg. Þetta er í þriðja sinn sem bankinn hækkar stýrivextina á skömmum tíma og það er einhvern veginn eins og Seðlabankamenn séu að bíða eftir verðbólgu sem ætlar að láta bíða eftir sér. Þeir henda því einu og einu spreki á eldinn til að reyna að kynda undir verðbólgunni með þessari ákvörðun, rétt eins og þeir gerðu í vor þegar þeir bjuggu til kostnaðarverðbólgu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Málið er hins vegar að það er engin þörf á því og engin vissa fyrir því og ekkert útlit fyrir að hér verði verðbólga á næstu mánuðum sem muni um, vegna þess að við eigum enn þá inni vöruverðslækkun vegna styrkingar krónu. Það mundi til dæmis muna um það nú fyrir jólin ef fatnaður á Íslandi lækkaði um svona 5–10%, eins og krónustyrkingin gefur fulla ástæðu til að ætla, og það gæti þess vegna virkað vel inn í þær verðbólgumælingar sem hér eru. Verðbólgan er núna 1,8% á ársgrundvelli. Ef við tökum íbúðarhúsnæðishækkun frá er hún nánast á núllinu. Hagvöxtur er 4,6% og menn eru bara lafhræddir vegna þessa.

Á Írlandi er hagvöxtur 6% um þessar mundir. Verðbólgan er undir núlli eða við núllið. Við hvaða stýrivexti búa Írar? 0,025% eða eitthvað slíkt. Ég skil bara ekki hvernig menn tala um verðbólgu hér, þar á meðal seðlabankastjóri, sem segir: Hún kemur nú samt þótt hún sé ekki komin, og í leiðinni er enn verið að bjóða erlendum aðilum til vaxtamunarveislu. Það á að fara að selja aflandskrónur í janúar upp á tvöhundruð og eitthvað milljarða, en hvað er búið að gerast á síðustu mánuðum? Það er að safnast upp önnur snjóhengja. Hún er reyndar bara skafl núna, 40 milljarðar, en hún heldur áfram að vaxa. Ætla menn að safna í aðra snjóhengju? Hvenær ætli þessir 40 milljarðar og fleiri sem á eftir fylgja verði boðnir upp? Þetta er algerlega óþolandi ákvörðun, algerlega.


Efnisorð er vísa í ræðuna