145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú er að vaxa úr grasi kynslóð neytenda sem alist hefur upp við mun meiri umræðu um umhverfismál en áður var. Þetta er ný kynslóð sem tengir gæði við sjálfbærni og gerir ríkar kröfur á því sviði. Fyrirtæki finna sífellt fyrir auknum kröfum um hreint umhverfi og rekjanleika vara. Það er því ánægjulegt að umhverfisdagur atvinnulífsins, sem haldinn var í fyrsta sinn nú á haustdögum, tókst með miklum ágætum. Þar komu saman rúmlega 200 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnkerfi og ræddu sjálfbæra nýtingu auðlinda og samspil umhverfismála og einstakra atvinnugreina. Þrátt fyrir að aðila innan samtakanna greini oft á um ýmislegt þar sem hagsmunir fara ekki alltaf saman má þó finna mikinn samhljóm meðal þeirra þegar kemur að umhverfismálum.

Þá hafa stofnanir ríkisins í auknum mæli unnið að umhverfisvænni rekstri og vistvænum innkaupum frá árinu 2013. Helstu niðurstöður könnunar sem gerð var í mars síðastliðnum á vegum stýrihóps um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, sem skipaður var af umhverfis- og auðlindaráðherra, eru að almennt hefur hvers konar umhverfisstarf aukist. Stofnanir hafa sett sér umhverfisstefnu og markmið auk þess sem þær flokka sorp í meira mæli en áður var. Þá hefur mikil aukning orðið í gerð samgöngusamninga.

Til að bregðast við óskum forstöðumanna um aukna fræðslu og einföld verkfæri til að geta unnið að vistvænum rekstri var verkefnið Græn skref í ríkisrekstri sett á fót. Nú þegar hafa 23 stofnanir skráð sig í það og ánægjulegt er að sjá að 78% stofnana þekkja nú þegar til verkefnisins og 56% þeirra segjast ætla að taka þátt í verkefninu. Þá sögðu forstöðumenn jákvæð áhrif umhverfsstarfs vera mörg, svo sem að starfsánægja starfsfólksins hafi aukist, fjármunir hafi sparast, samgöngusamningar hafi hvatt til vistvænni ferðamáta og aukinnar hreyfingar og að ímynd stofnunarinnar hafi batnað. Þetta eru allt liðir í því að móta langtímahugsun og heildræna sýn á nýtingu auðlinda okkar (Forseti hringir.) og skila auðlindum í jafn góðu eða betra ástandi til komandi kynslóða.


Efnisorð er vísa í ræðuna