145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins hefur talsvert verið til umfjöllunar og það var athyglisvert að heyra Eyþór Arnalds, formann úttektarnefndarinnar, sem hefur mikla reynslu af rekstri sem kunnugt er, fara yfir það í útvarpinu í morgun að ekki væri verið að eyða þar miklu í efnisframleiðsluna í sjálfu sér, að nefndin teldi ekki að verið væri að verja neitt óeðlilega miklu til efnisframleiðslunnar.

Ég dreg það fram hér vegna þess að auðvitað er ákaflega mikilvægt að fá staðfestingu á því að dagskrárefni hjá Ríkisútvarpinu sé framleitt með hagkvæmum og eðlilegum hætti. Það kann hins vegar vel að vera að gerð hafi verið mistök við stofn efnahags félagsins, við það að hlaða að lífeyrisskuldbindingum eða við ákvarðanir um einhverjar fjárfestingar í tæknilegum efnum, en það eru þá ákvarðanir sem teknar eru af stjórn Ríkisútvarpsins á ábyrgð Alþingis og fjárveitingavaldsins. Og það er mikilvægt að hin eðlilega og heilbrigða dagskrárgerð, sem ekki er verið að kosta óeðlilega miklu til að mati nefndarinnar, sé ekki látin líða fyrir það, að sparað sé fyrir offjárfestingum í dreifikerfi í dagskránni. Fjárveitingavaldið verður auðvitað að axla ábyrgð á þeim ákvörðunum sem menntamálayfirvöld og stjórn Ríkisútvarpsins hafa tekið í þessum efnum og tryggja að hægt sé að halda áfram hagkvæmri og eðlilegri dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu fyrir alla landsmenn.

Það er líka mikilvægt fyrir lýðræðið að fyrirheit menntamálaráðherra í því efni nái fram að ganga, en að tilraunum formanns fjárlaganefndar til að kúga fjölmiðla til hlýðni með því að leggjast fyrir tillögur menntamálaráðherra verði ekki haldið uppi af öðrum þingmönnum hér í salnum.


Efnisorð er vísa í ræðuna