145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stundum er sagt að heimurinn fari minnkandi. Ég er ósammála því, ég vil meina að heimurinn fari stækkandi. Hann stækkar hratt og hann stækkar mikið og það er mikið gleðiefni. Það sem er að gerast núna á 21. öldinni er með gleðilegri þróunum sem ég veit til að hafi orðið í mannkynssögunni og það er að við erum öll að verða tengdari, þjóðir og fólk úti um allan heim. Það þýðir að við höfum meiri tilhneigingu til þess að kynnast fólki fyrir utan landsteinana og höfum meiri tilhneigingu til þess að flytja milli landa.

Við forvitna fólkið lendum hins vegar oft í því þegar við flytjum á milli landa að vera ekki velkomin. Við erum ekki velkomin vegna þess að í landinu sem við fluttum til er löggjöf sem er beinlínis hönnuð til þess að halda fólki frá því. Við búum við slíka löggjöf hér á landi.

Það er mikill munur á upplifun hins almenna Íslendings á innflytjendalöggjöf eða útlendingalögum á Íslandi og því sem raunin er. Fólk heldur jafnvel að það sé til eitthvað sem heitir almennt dvalarleyfi, en það er ekki til. Það heldur jafnan að ef fólk kemur hingað, borgar skatta, vinnur og forðast afbrot og því um líkt þá geti fólkið verið hér. Það er ekki tilfellið nema það komi frá EES-svæðinu. Eina auðvelda leiðin til að flytja til Íslands er að vera frá EES-svæðinu, að öðru leyti er það erfitt. Það er óháð því hvort við erum að tala um flóttamenn eða hælisleitendur eða bara fólk sem kynntist einhverjum eða langar að læra tungumálið. Það er til fólk sem flytur hingað til þess að læra íslensku, til þess að aðlagast íslensku samfélagi, vegna þess að því þykir landið okkar fallegt og skemmtilegt og þjóðin okkar furðuleg og skemmtileg í kjölfarið. En það má ekki vera hérna. Af hverju? Af því bara, virðulegi forseti. Af því bara. Það er löggjöfin sem við búum við í dag.

Mig langar að hvetja hið háa Alþingi og almenning til þess að ræða útlendingalögin með miklu opnari hug en við gerum núna og ekki af einhverri ölmusu heldur vegna þess að við trúum því að stækkandi heimur sé í grundvallaratriðum jákvæð þróun sem við eigum að styrkja frekar en hitt.


Efnisorð er vísa í ræðuna