145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Úrlausn þess vanda sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja skapar fyrir íslenskt efnahagslíf er eitt mikilvægasta verkefni vorra tíma. Það er eitt skot í byssunni, sagði seðlabankastjóri réttilega, og ástæðan fyrir því að það skot er í byssunni er að byssan var hlaðin í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar þegar Sjálfstæðisflokkurinn var á móti því og Framsóknarflokkurinn sat hjá, þegar við sköpuðum okkur samningsstöðuna sem nú er verið að nýta. Vegna þess að það er bara eitt skot í byssunni skiptir gríðarlega miklu máli að nýta það vel. Það veldur áhyggjum að engin trúverðug heildaráætlun hefur verið birt, allar forsendur eru óljósar, leynimakkið á sér ekki fordæmi í íslenskri sögu. Svo bárust okkur líka varúðarorð fyrir nokkrum mínútum frá Indefence sem bendir á að það sé villandi framsetning stjórnvalda á umfangi stöðugleikaframlaganna. Að minnsta kosti 500 milljarðar bíða eftir að fara í erlendum gjaldeyri úr landinu, undanþágur fyrir kröfuhafa muni hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarinnar til langs tíma. (Forseti hringir.) Allir þessir þættir valda því að við erum að stíga mikið óvissuskref og ríkisstjórnin hefur ekki staðið við þá frumskyldu sína að byggja sátt um þetta mál eða útskýra grundvöll þess. Þess vegna eru verulegar hættur á því að almenningur, lífeyrissjóðir og íslensk fyrirtæki muni ekki komast úr höftum. Þess vegna er ekki hægt að standa að samþykkt þeirra tæknilegu breytinga sem hér verða greidd atkvæði um.