145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það mál sem við erum hér að greiða atkvæði um snýr að því að auka líkur á að slitabúum takist að ljúka gerð nauðasamnings og fá hann staðfestan fyrir héraðsdómi á næstu vikum og mánuðum. Það er í samræmi við það sem upp var lagt með í sumar. Stjórnvöld lýstu sig strax þá reiðubúin að greiða fyrir gerð nauðasamninga.

Í umræðu um málið hefur margt annað borið á góma en tengist beint efnisatriðum þessa máls. Ég geri svo sem engar athugasemdir við það. Hver og einn hagar sínum málflutningi eins og honum þykir best henta. En ég ætla þó að gera athugasemd við að það virðist koma mörgum á óvart hvernig ferill málsins hefur verið undanfarnar vikur, en um það var búið með frumvarpinu sem samþykkt var í júní, þ.e. ef samþykkt yrði leið stöðugleikaframlaga með undanþágu væri það fyrst og fremst Seðlabankans, sem hefur skilað 25 blaðsíðna greinargerð um það mál, og svo fjármála- og efnahagsráðherrans eftir kynningu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd (Forseti hringir.) að ákveða það án sérstakrar aðkomu þingsins. Þetta var samþykkt hérna með öllum greiddum atkvæðum ef ég man rétt, að minnsta kosti var enginn sem — ja, hérna er reyndar einn sem hristir hausinn, en það gerði enginn athugasemd við þessa málsmeðferð. Við erum bara að fylgja henni núna.