145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja um vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli núna á þessum síðustu metrum, eins og það að láta nefndina flytja svo veigamikla breytingartillögu sem gert hefur verið, að þessar aðgerðir hafa orðið til þess að rjúfa hér hina stóru og miklu sátt sem náðist í júní um þetta mál.

Nú er enn að koma fram að gera þurfi frekari breytingar. Það vissu menn ekki, a.m.k. ekki menn í minni hlutanum fyrir nokkrum mínútum. Ég krefst þess eiginlega að nefndin fjalli um þá greinargerð sem Indefence-hópurinn sendi öllum þingmönnum rétt áðan og það sé fjallað um það ásamt spurningum sem komu fram í þingsal í gær við 2. umr. og var ekki svarað af meirihlutafulltrúum nefndarinnar, hvorki formanni né talsmanni. Þá hlýtur það að vera skýlaus krafa okkar, óbreyttra þingmanna sem getum ekki setið (Forseti hringir.) í nefndinni og fjallað um þetta, að nefndin vinni þetta almennilega og geri það í nefndaráliti eins og til dæmis að svara þessu með Indefence-álitin.

Ég leyfi mér að minna á 30. gr. þingskapa í svo stóru og veigamiklu máli sem ég held að nefndin ætti að athuga líka.