145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar við breytingartillögu sem liggur frammi á þskj. 379.

Málinu var vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. og fjallaði nefndin um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nefndinni þótti nauðsynlegt að gera breytingar til viðbótar þeim sem gerðar voru við 2. umr. Ég vísa þá til þskj. 354. Gerð var grein fyrir þeim breytingum í nefndaráliti á þskj. 353.

Með þeim breytingartillögum sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur nú fram er í fyrsta lagi lögð til breyting á 3. gr. frumvarpsins sem lýtur að breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, svokallaðan bankaskatt. Með þessari breytingu er stefnt að sama markmiði og stefnt var að með frumvarpinu, þ.e. að skylda til greiðslu bankaskattsins falli niður árið 2016 gagnvart þeim lögaðilum sem ljúka munu slitameðferð með nauðasamningi. Þessi breyting leiðir af þeim fresti sem lagður er til í 3. tölulið breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem lögð var fram milli 2. og 3. umr.

Í öðru lagi er lögð til breyting á millivísun sem leiðir af öðrum breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu.

Í þriðja lagi er svo lagt til að við lög um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Við 2. umr. var afturkölluð breytingartillaga þess efnis í þeim tilgangi að skýra betur efni ákvæðisins þannig að það færi ekki á milli mála að 1. mgr. ákvæðisins væri ætlað að ná til þeirra lögaðila sem hafa lokið slitameðferð með staðfestum nauðasamningi fyrir 15. mars 2016.

Þá taldi meiri hluti nefndarinnar einnig rétt að árétta að 2. mgr. ákvæðisins tæki aðeins til þeirra lögaðila sem þegar hafa lokið slitameðferð með staðfestum nauðasamningi en hafa ekki náð að efna hann með greiðslum vegna fjármagnshafta. Lögaðilar sem héraðsdómur hefur úrskurðað um að skuli teknir til gjaldþrotaskipta falla eftir sem áður undir skattskyldusvið laga um stöðugleikaskatt.

Undir þetta nefndarálit og þessar breytingartillögur rita sú er hér stendur auk hv. þingmanna Frosta Sigurjónssonar, formanns nefndarinnar, Guðmundar Steingrímssonar, Líneikar Önnu Sævarsdóttur, Vilhjálms Bjarnasonar og Willums Þórs Þórssonar.