145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar þær breytingartillögur sem nú hafa verið lagðar fram er rétt að árétta að þær eru til þess eins að skýra efni áður fram kominna breytingartillagna sem hafa verið til umræðu og voru einkum til umræðu í allan gærdag. Auðvitað má lengi manninn reyna við lögskýringar en það þótti ljóst að (Gripið fram í.) skýra varð efni þeirra breytingartillagna sem voru til umræðu og búnar að vera til meðferðar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í heilan mánuð.

Hvað varðar þá leið sem mögulega verður ofan á, að slitabúin ljúki slitum með gerð nauðasamninga, þá liggur fyrir úttekt Seðlabankans á því, sem gerð hefur verið opinber. Ég vænti þess að hv. þingmenn hafi kynnt sér þá skýrslu upp á tugi blaðsíðna um áhrif lykta þessara mála með nauðasamningi á hinn svokallaða greiðslujafnaðarvanda. Það er mat Seðlabankans og þeirra sem um þann þátt málsins hafa fjallað, stýrihópsnefndar um losun fjármagnshafta og fjármálaráðuneytisins, að sú lausn sem hefur verið kynnt ógni ekki stöðugleika hér í efnahagslegu og fjármálalegu tilliti. Það er því ekki rétt sem hv. þingmaður hélt hér fram að menn hefðu ekki nokkrar upplýsingar um afleiðingar þess að slitabúin gerðu nauðasamning við kröfuhafa sína. Það er alls ekki rétt. Um það efni liggja fyrir skýrslur.