145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef kynnt mér þessi gögn og ég geri mér alveg grein fyrir því að Seðlabankinn styður það að undanþágurnar verði veittar og leggur það til. Það breytir því ekki að okkur ber skylda til að velta við hverjum steini. Ég deili þeirri skoðun hv. þingmanns að markmiðin að baki stöðugleikaframlögunum skipti öllu máli. Stöðugleikamarkmiðin eru rétt. Ég er sammála hv. þingmanni um það. En ég minni á það sem Indefence rekur svo ágætlega í umfjöllun sinni frá í dag að stjórnvöld leggja ranglega áherslu á meintar tekjur sem stöðugleikaskilyrðin skila þjóðarbúinu með allri framsetningu þessa máls, með öllu auglýsingaskruminu í kringum blaðamannafundina þar sem stöðugt er verið að hirða einhverjar tölur héðan og þaðan sem hafa ekkert með raunveruleg stöðugleikaframlög að gera, til þess að reyna að koma sér upp í yfir 800 milljarða til að reyna að segja að menn fái út einhverja tölu sem er sambærileg stöðugleikaskattinum. Það er skaðlegt. Það grefur undan stöðugleikaskilyrðunum en er gott dæmi um þann loddaraskap sem einkennt hefur framsetningu þessa máls af hálfu ríkisstjórnarinnar og er gríðarlegt áhyggjuefni.

Ég fagna því að hv. þingmaður skuli hafa manndóm í sér til þess að efna til nefndarfundar til þess að fara yfir málið. En mér finnst það háðulegt að það skuli vera formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur vit fyrir ríkisstjórninni í þessu efni og að ríkisstjórnin skuli ekki hafa sagt að þetta mál mundi bíða, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa átt frumkvæði að því að efna til funda til þess að leita af sér allan grun í málinu, heldur skuli það vera formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem ætlar að kalla til fundar í efnahags- og viðskiptanefnd á morgun þar sem fulltrúar Indefence koma og geta rætt þetta mál eftir að búið er að samþykkja (Forseti hringir.) frumvarpið sem hér er til umræðu, þannig að allir koma að ketinu soðnu. Enginn fær að koma að málinu áður en því er ráðið til lykta. Þetta eru hörmuleg (Forseti hringir.) vinnubrögð, en það svo sem hv. þingmanni til sóma að hann skuli einn skerast úr leik hvað varðar vinnubrögð (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna í þessu máli.