145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því sem ég get bara kallað gremju mína í garð þessa málatilbúnaðar alls er ósköp einfaldlega sú að í vor voru samþykkt tvö frumvarp og gerð að lögum. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson fór yfir lagaumbúnaðinn í öðru þeirra mála áðan sem lýtur að því að náist nauðasamningar þá meti Seðlabankinn hvort þeir uppfylli markmið laganna og fjármálaráðherra staðfesti þá að höfðu samráði við efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er laganna bókstafur. Ástæða þess að þetta var samþykkt með þessum hætti í vor var að við sýndum ríkisstjórninni ákveðið traust, traust sem byggðist á þeirri sannfæringu að ríkisstjórnin mundi nýta þann vettvang sem hún hafði, t.d. í samráðsnefnd um losun hafta, til að hafa samráð um hvað yrði gert og það þyrfti ekki að skrifa það í lög. Það var hluti af anda umræðunnar í vor og hluti af því að þessi mál fengu greiða leið í gegnum þingið í vor var að við trúðum því að það ríkti ákveðið traust og fólk yrði kallað til samráðs þegar sæi fyrir endann á málinu. Það var svo ekki gert.

Ég hlýt að segja að það er ósköp skiljanlegt að við sem lítum á okkur sem fulltrúa almennings, kjörna til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og fylgjast með því sem þar er að gerast, séum ekki sátt við það hvernig staðið hefur verið að málum. Ég er þó ekki að gagnrýna hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur reynt að fara yfir þessi mál sem víðtækustum hætti en umboð hennar er ekkert annað en að taka við kynningu á málinu.

Hér kom fram áðan í máli hv. þm. Frosta Sigurjónssonar að fulltrúar Indefence-hópsins yrðu kallaðir á fund nefndarinnar á morgun ásamt fulltrúum fjármálaráðuneytis og Seðlabankans, reyndar að beiðni minni og annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, af því okkur finnst mikilvægt að við sinnum aðhaldshlutverki þingsins. Hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, tók vel í þá beiðni. Það væri óskandi að slíkum beiðnum væri almennt betur tekið á vettvangi Alþingis og vettvangi framkvæmdarvaldsins.

Eins og ég fór yfir allítarlega í gær hefur það valdið mér að minnsta kosti mjög miklum vonbrigðum að hafa upplifað engan vilja til samráðs af hálfu ríkisstjórnarinnar og horfa svo hér á suma hv. þingmenn kallandi fram í undir umræðunni í gær og reyna að afsaka þennan skort á samræðum með dólgslátum, frú forseti. Mér finnst það mikil vonbrigði og mér finnst þingið setja niður í þessu máli, því þetta er gríðarlega stórt hagsmunamál. Hv. þingmenn eru margir hverjir fyrst núna að komast í almennileg kynni við hvað býr á bak við þessa nauðasamninga sem í raun og veru er búið að samþykkja af hálfu fjármálaráðherra.

Hér var áðan vitnað í umsögn Indefence. Það sem slær mann líka er kynningin á málinu eins og ég nefndi mjög stuttlega fyrr í dag, kynningin á málinu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd en líka fyrir almenning í formi blaðamannafundar, kynning sem öll er byggð upp á þeirri forsendu að búið er að kynna ákveðnar tölur sem kynntar voru í vor. Svo er farið í aðra kynningu á tölum til þess að sýna fram á að tölurnar frá í vor standi fyrir sínu. Samt segir hæstv. fjármálaráðherra í þinginu að tölurnar skipti ekki öllu máli heldur snúist þetta bara um að hlutleysa vandann. Gott og vel. Ef þetta snýst um að hlutleysa vandann og við getum verið sammála um það, af hverju byggir þá kynningin öll á því að standa við stóru tölurnar? Þetta vekur mér líka gremju og veldur mér vonbrigðum að verið sé að fara í þennan feluleik í málinu, búa til leikmynd í kringum þetta mál í stað þess að reyna að eiga eðlilegt samtal þannig að við getum lagt sjálfstætt mat á málið, verið upplýst og haft góða sannfæringu fyrir því sem er að gerast. Þetta var tækifæri til þess að gera það. Það er algjörlega búið að kasta því á glæ.

Það sem eftir situr, og það hefur kom fram í störfum efnahags- og viðskiptanefndar, er tortryggni gagnvart ferlinu, skortur á trausti. Við munum ræða umsögn Indefence-hópsins á morgun vonandi eða á næstu dögum um mál sem er í raun og veru orðinn hlutur. En það er ekki þar með sagt að búið sé að segja síðasta orðið um það því þetta skiptir mjög miklu máli.

Eins og ég fór yfir í ræðu minni í gær, sem ég hefði gjarnan viljað prenta út fyrir þetta ágæta tækifæri en reynist nú erfitt á köflum hér í þinginu, er ýmislegt sem þarf að skoða betur. Það lýtur að því hvernig búið er að breyta tímalínunni í raun og veru frá því í vor, ekki liggur fyrir áætlun um afnám hafta á almenning, ekki liggur fyrir nákvæmlega hvernig lífeyrissjóðirnir muni geta uppfyllt fjárfestingarþörf sína miðað við þá fjármuni sem þeir liggja með, hvernig nákvæmlega á að losa þá úr höftum. Jú, það hefur komið fram munnlega að menn séu bjartsýnir á að það geti gengið hratt en eðlilega vakna spurningar þegar við lesum umsögn á borð við þá sem við höfum til dæmis núna í höndum frá Indefence. Það vakna eðlilega spurningar þegar við reynum að rýna í tölurnar og bak við kynninguna þar sem manni sýndist í raun og veru fyrst og fremst verið að toppa töluna 815 milljarðar með 856 milljörðum og þar var allt tínt til, t.d. skuldir bankanna við ríkið sem skyndilega eru orðnar hluti af stöðugleikaframlögum, lengingar í lánum og ýmislegt annað er tínt til og sumt tvítalið. Þetta er ástæðan fyrir þeim vonbrigðum sem ég verð að fá að lýsa við afgreiðslu þessa máls. Ég er ansi hrædd um að það traust sem mér finnst hafa laskast hér muni hafa áhrif fram í tímann.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson sagði hér áðan að betur hefði farið á því að þingið hefði fengið þetta mál til staðfestingar. Já, ég er sammála því. Það hefði farið betur á því. Það hefði farið betur á því að við hefðum fengið þann tíma sem við hefðum þurft til þess að ræða þessi mál og hefðum ekki í raun og veru horft upp á það að vera ekki sýnt það traust að fá upplýsingar, fá að fylgjast með málinu eins og hefði þurft að gera til að ná að halda einhverri sátt um það.

Um þær breytingar sem liggja fyrir má kannski segja að verið er að ljúka við það bútasaumsteppi sem málið er. Það tók mjög miklum breytingum milli 1. og 2. umr. og það tekur aftur ákveðnum breytingum núna. Meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar gerir sitt besta til þess að vinna úr ábendingum fjármálaráðuneytis sem kemur til okkar og kynnir breytingarnar sem ábendingar úr símtölum og tölvupóstum við kröfuhafa. Hér er Alþingi undir mikilli tímapressu að gera breytingar á umgjörð stöðugleikaframlaganna eftir ábendingum kröfuhafa. Þótt ég efist ekki um að þetta sé eins vel unnið af hálfu meiri hluta nefndarinnar og hægt er þá finnst mér enginn bragur á því að vinna málið undir þessari tímapressu.

Frú forseti. Ég verð að segja að lokum að maður upplifði það fyrir helgi að málið yrði að klárast í síðustu viku annars mundi allt fara — ég þori nú ekki að fara með nein blótsyrði hér í ljósi gærdagsins, en þá mundi allt fara á versta veg. Nú er komið fram á miðvikudag og enn þá hefur ekkert farið á versta veg og enginn dáið eða neitt slíkt. Ég velti því stundum fyrir mér hvort tímapressan sem við erum sett í sé hreinlega raunveruleg. Það er alla vega ekki góð tilfinning að vinna að málum með þessum hætti, frú forseti. Mér þykir leitt að sjá hvernig hefur farið með þetta mál. En afstaða mín er óbreytt. Ég mun ekki styðja málið heldur sitja hjá við afgreiðslu þess.